Vor dama
Jóhannes Páll II liggur nú banaleguna og er því mikið í umræðunni. Í gær heyrði ég viðtal á Talstöðinni við mann sem ég náði ekki hvað hét, en líklega var hann íslenskur kaþólikki. Hann var m.a. spurður um sína skoðun varðandi þá gagnrýni sem páfinn hefur fengið vegna íhaldsamra skoðana um stöðu konunnar innan kaþólsku kirkjunnar, um fóstureyðingar og boðun skírlífis í stað getnaðarvarna. Viðmælandinn útskýrði að kirkjan væri klettur sem ætti ekki að haggast í takt við tímann og gæti ekki leyft sér eitthvað flandur. (Allt í lagi, það er svo sem skiljanleg afstaða, en það verður þó að teljast óheppilegt að afneita boðun getnaðarvarna á tímum alnæmis.) Því næst benti hann á að sennilega væri engin stofnun í heiminum sem sýndi konum jafnmikla virðingu og kaþólska kirkjan, og nefndi Maríudýrkunina þessu til stuðnings.
Sannarlega er María guðsmóðir veigamikill hluti af kaþólsku trúarlífi, en þó má setja spurningarmerki við samhengi maríudýrkunar og virðingar við konur almennt. Svo virðist sem helsti kostur Maríu, fyrir utan auðvitað að hafa fætt Jesú, sé meydómur hennar. María var nefnilega svo flekklaus og góð, hún var hrein mey ante partum, in partu og post partum. Hún er fullkomin fyrirmynd þess ídeal kvenmanns sem er hrein mey fyrir giftingu og móðir eftir giftingu. Ekki nóg með það heldur bendir allt til þess að María hafi hvorki borðað né haft hægðir, eða kannski mögulega borðað, en alls alls ekki pissað eða kúkað. Að minnsta kosti var raunverulega deilt um þessa eiginleika Maríu innan kaþólsku kirkjunnar. Niðurstaðan er sú að hún var dyggðug, flekklaus og óháð líkamlegum hvötum, enda er líkaminn saurugur.
María mey er dýrlingur, hin æðsta kona. En lotningin fyrir Maríu þýðir samt ekki að konur séu hæfar til að starfa sem prestar innan kaþólsku kirkjunnar, eða fara í fóstureyðingu undir nokkrum kringumstæðum, jafnvel þótt þær verði óléttar eftir nauðgun. Svo þótt María mey sé dýrkuð sem dýrlingur í kaþólskri trú segir það lítið um virðingarstöðu hinnar raunveruleg konu, þessarar sem pissar og kúkar og stundar kynlíf, innan kaþólskunnar.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli