Hugarangur
Á meðan ég sat við lærdóm fyrr í vikunni fiktaði ég við lyklakippuna mína í höndunum, eins og nokkurs konar stressbolta. Hún virkaði þó ekki sem slíkur, því ég gerði óþægilega uppgötvun sem sló mig út af laginu. Á lyklakippunni minni eru fjórir lyklar; einn sem gengur að mínu heimili, einn að ömmu og afa, húslykill að heimili Önna og svo...lykill sem ég kannast ekkert við. Ég varð mjög undrandi þegar ég áttaði mig á því að ég veit ekkert hvaðan sá fjórði kemur, eða að hverju hann gengur. Samt er ég nokkuð viss um að hann hefur hangið á kippunni nokkuð lengi, jafnvel frá upphafi. Ég eignaðist þessa lyklakippu í 3.bekk í MR og það er eins og mig minni að einhvern tíma hafi þessi dularfulli lykill verið í reglulegri notkun, en hann hefur smám saman þurrkast út úr minni mínu. Ekki er þetta húslykill, því hann er gerólíkur slíkum í útliti. Hann er töluvert lítill, silfraður og á bakhliðinni er appelsínugulur límmiði sem á hefur verið skrifaður tölustafurinn 8 með blekpenna. Þetta segir mér ekkert. Hvaða merkir þessi 8? Skrifaði ég hana? HVER ER TILGANGUR ÞESSA LYKILS?!
Það er mjög óþægilegt þegar maður veit að minnið er að bregðast manni. Allar upplýsingar um þennan lykil ættu með réttu að vera í höfðinu á mér, en sama hvað ég gref eftir þeim þá finn ég þær ekki. Hvað ef þessi lykill var mér einhverntíma mjög mikilvægur og kær? Hvað ef hann gengur að einhverju afar merkilegu sem ég man ekki lengur að er til? Fjársjóðskistli...eða einhverju. Vonandi er þessi minnisbilun ekki fyrsta merki um heilahrörnun þrítugsaldursins.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli