mánudagur, september 26, 2005

Klukkuð

Bloggleikurinn "segðu 5 persónulega hluti um sjálfan þig" tröllríður nú bloggheimum og ég hef verið klukkuð. Ég lít á það sem ágætis tækifæri til að byrja aftur að blogga eftir hlé, sem stafar fyrst og fremst af internetleysi heima hjá mér en líka af hugmyndaþurrð og dvínandi bloggmóð. Á næstunni munum við þó koma okkur upp nettengingu á Freyjugötunni og þá stendur þetta væntanlega til bóta.

1. Í sumar þyngdist ég um 5 kíló, úr 58 kílóum í maí í 63 kíló í september. Af þessum sökum þrengja nú allar buxur sem ég á óþægilega að mér. Ég hef samt ákveðið að kaupa mér ekki nýjar, bæði vegna þess að ég er að spara pening, og líka vegna þess að ég vil frekar ná mér niður í hinar aftur.

2. Alltaf þegar ég les um hópnauðgunarmálið sem nokkuð hefur verið fjallað um undanfarna viku, þá á ég erfitt með að hemja hatur mitt til þessara manna sem nauðguðu konunni. Ég sé afar grafískt fyrir mér að ég sé að sparka í andlitin á þeim, og ég vona, en efast jafnframt um, að þeir skilji nákvæmlega hversu miklir aumingjar þeir eru, og ég vona að þeir muni aldrei verða hamingjusamir og að engin kona muni nokkurn tíma elska þá og að þeir fái aldrei vinnu neins staðar og ég vona að þeir deyji hægum og kvalafullum dauðdaga og að enginn muni sakna þeirra eða syrgja þá.

3. Um næstu mánaðamót mun ég í fyrsta skipti borga kreditkortareikning sem er hærri en 100 þúsund krónur. Ég vil helst ekki hugsa til þess því þá fæ ég kvíðakast.

4. Mér hefur alltaf þótt mjög óþægilegt að gráta frammi fyrir öðru fólki (ólíkt mörgum stelpum að því er virðist), öðrum en mínum allra, allra nánustu. Ég hef því forðast mjög að gráta opinberlega alveg síðan ég var krakki og gekk það jafnvel svo langt að í fyrsta skipti sem ég fór í kistulagningu reyndi ég að halda tárunum aftur. Ég held því að ég fari með rétt mál þegar ég segi að ég þeir einu sem hafi séð mig gráta séu nánasta fjölskylda og Önni.

5. Sú staða var samt nálægt því að breytast í gærkvöldi, þegar ég horfði á myndina The Notebook með vinkonum mínum og táraðist ekki bara, heldur átti ég líka erfitt með að ráða við kökkinn í hálsinum. Það tókst þó að lokum með djúpum öndunaræfingum. Falleg mynd maður, um eilífa ást. Ég er nefnilega búin að vera í einhverju ástarkasti undanfarið.

Og þar hafið þið það.

Engin ummæli: