Bernhöftsbakarí
Hversu lélegt getur eitt bakarí verið? Á meðan ég var í MR álpaðist ég stundum þangað í hádegishléinu og prísaði mig jafnan sæla yfir að búa í nágrenni við almennilegt konditori. En nú bý ég ekki svo vel. Í gærmorgun gekk ég niður í Bernhöfts til að kaupa sunnudags-brunch. Þaðan gekk ég út með ekkert nema brauð. Brauðin eru jú ásættanleg, enda þyrfti mikið til að bakarí klúðraði brauðgerð. Þarna hafði ég hinsvegar ætlað mér að kaupa jógúrt, en enga jógúrt var að fá. Engin jógúrt, en nóg var af Gatorade og gosi. Auk þess langaði mig í appelsínusafa og jú, hann var til, en ekki kaldur. Kælirinn var greinilega nýfylltur og því höfðu vörurnar ekki náð að kólna. Mér er spurn, hvers konar vöntun á fyrirhyggju bakaríisstarfsmanna er það að undirbúa sig ekki fyrir sunnudagsmorgna?
Þegar ég kem þarna er brauðborðið iðulega hálftómt og aldrei er hægt að ganga að neinu vísu þarna, vara sem maður keypti í gær verður kannski ekki bökuð aftur fyrr en hinn daginn. Um daginn stóð mamma þarna í röð fyrir aftan konu sem spurði um kringlur. Afgreiðslustúlkan fór þá baka til og kom með eina kringlu til baka á töng til að sýna viðskiptavininum. Þegar konan bað um fimm stykk svaraði stúlkan að "nei, við erum eiginlega hætt að baka kringlur, það er svo lítið keypt af þeim." En samt baka þau eina? Eða geyma þau kannski þessa einu til minningar? Í Bernhöftsbakarí hef ég líka gert ýmsar tilraunir til sætabrauðskaupa, en undantekningalítið fengið þurrt og óáhugaverð stykki.
Mér finnst þetta svo sérkennilegt, því þetta er eina bakaríið í Þingholtunum að því er ég best veit, og ætti því ekki að vera skortur á viðskiptavinum. Samt hafa þeir ekki meiri metnað en svo að bjóða fólki upp á hálftómt kökuborð og volgan (og jafnframt stundum galtóman) kæli. Maður myndi þá kannski ætla að vegna takmarkaðs úrvals og lélegra gæða væri verðið hugsanlega lægra, en svo er ekki. Það er kannski ekki nema von, þar sem næsti samkeppnisaðali er Björnsbakarí á Hringbraut og þótt það sé ögn skárra er það samt arfaslakt.
Núna er ég því farin að skilja betur þær furðusögur sem oft heyrðust í Mosó, að þangað keyrði fólk úr öðrum bæjarfélögum á sunnudagsmorgun til að kaupa í morgunmat.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli