föstudagur, nóvember 04, 2005

Símafælni

Ég hef alltaf verið haldin snert af símafælni, sem ég hef hingað til ekki litið á sem vandamál. Eftir því sem ég verð fullorðnari kemur hinsvegar berlegar í ljós hve þessi fóbía háir mér. Ég áttaði mig á þessu þegar ég var að fárast yfir því að ég kæmi engu í verk af to-do listanum mínum. Kom þá í ljós að í öllum tilfellum þarf verknaðurinn að hefjast með símtali. Á to-do listanum mínum eru eftirfarandi atriði:

1) Ég þarf að fara í klippingu
2) Ég þarf að fara til læknis og láta fjarlægja vörtu (sjokkerandi afhjúpun; -já, ég er með vörtu)
3) Ég þarf að fara í leghálskrabbaskoðun (fékk boðun í apríl)
4) Ég þarf að fara í ökumat (já ég skammast mín, það eru tæpir 2 mánuðir síðan ég bloggaði um þetta og ég hef ekkert gert í því).
5) Ég þarf að hringja í vinnufélaga minn (sem ég hef aldrei hitt) til að staðfesta fyrirkomulag um vaktaskipti.

Símafóbían á ekki við um persónuleg símtöl, aðeins um formleg. Nema stundum örlar aðeins á henni þegar ég þarf að hringja til vina minna á formlegum nótum, eins og þegar ég hringi í vini mína til að bjóða þeim í heimsókn til mín eða í partý. En í slíkum tilfellum er hún vægari en ella og yfirstíganlegri. Þessi "ótti", ef ótta má kalla, við símann er algjörlega órökstuddur og tilhæfulaus. Ég kvíði í rauninni ekki samtalinu sjálfu, né niðurstöðu samtalsins eða eftirmála. Þegar tími hefur verið pantaður er vandamálið úr sögunni, því ég hef engar raunverulega áhyggjur af því að fara til læknis eða í ökumat. Það eina sem stöðvar mig er bara þessi verknaður; að taka upp símann, stimpla inn númerið og bíða. Um leið og svarað er á hinni línunni hverfur stressið, því vandinn er ekki samtalið sjálft. Ég get alveg spjallað heillengi í símann, það er ekki málið (fóbían veldur samt því að ég hringi ekki í fólk nema það sé eitthvað markmið með símtalinu annað en bara að spjalla.) Eiginlega er mun verra ef ekki svarar, því það þýðir þá að ég þarf að gera aðra tilraun seinna. Í ljósi þessa er kannski skrýtið að ég vinni við að svara í síma. En fóbían á ekki við um símsvörun, hún kemur bara upp þegar ég er í hlutverki gerandans.
Vegna þessa þarf meira til en bara að muna eftir því sem ég þarf að gera. Ástæðan fyrir því að ég hef ekki komið neinu í verk er ekki sú að ég gleymi því alltaf. Ég man eftir þessu öðru hvoru og hugsa með mér að nú drífi ég í því, en svo finn ég alltaf einhverja ástæðu til að fresta símtalinu til morguns.
Svona fóbíur eru svo sérkennilegar, einmitt vegna þess að þær eru órökréttar. Ég á erfitt með að henda reiður á orsökum þessarar fælni, ég veit bara að ég fæ alltaf hnút í magann og þarf að peppa mig upp andlega þegar aðdragandinn að símtali hefst.

Engin ummæli: