Hamline University
Að öllu óbreyttu mun ég dveljast í Bandaríkjunum á vormisseri, sem skiptistúdent við Hamline University í St.Paul/Minneapolis. Þótt ég hafi verið að hugsa um þetta lengi og svona dútla við að sækja um endaði þetta að sjálfsögðu þannig að ég var á síðasta snúning að skila umsókninni. Prógrammið virkar þannig að fjöldi Íslendinga sem fer út og Ameríkana sem kemur hingað verður að vera jafn, og þegar ég skilaði loksins umsókninni var mér sagt að þegar hefðu 3 bandarískir stúdentar hætt við vegna fellibylsins Katrínar. Ég varð því orðin nokkuð nervös með að kannski kæmist ég ekki eftir allt saman, en úr því rættist þó.
Að vísu var búið að fylla plássið í skólanum sem ég setti efst á lista, en hann var staðsettur í San Jose í Californiu. (Jafnvel þótt sérstaklega hafi verið tekið fram að við val á skóla ætti að líta lengra en til New York og Californiu þá freistaðist ég til að reyna.) Við val á skóla hafði ég tvö aðalatriði í huga; í fyrsta lagi að mér litist vel á skólann per se; í öðru lagi langaði mig helst að vera í borgarsamfélagi. Skólarnir í Californiu og nálægt New York voru allir Restricted og aðeins var leyfilegt að sækja um einn R-merktan skóla. Engir skólar stóðu til boða í Boston eða Seattle, né heldur San Fransisco. Minneapolis skipaðist því í annað sæti á listanum.
Hamline University er að vísu staðsettur í St.Paul, sem er "tvíburaborg" Minneapolis, þær eru nánast samvaxnar á sitthvorum bakka Mississippi árinnar. Í tvíburaborgunum búa 2 milljónir manna. Hamline University er hinsvegar lítill skóli, einkarekinn, með aðeins um 4000 nemendur. (Sbr.Minnisota State University með 45.þús nem.) Eftir því sem ég best veit er þetta góður skóli, það fullyrti bandarísk stelpa sem situr með mér í kúrsum í ár, auk þess er hann ágætlega hátta "rankaður".
Þarna mun ég búa á campus, í tveggja manna herbergi. Vormisserið í Hamline byrjar ekki fyrr en um mánaðamótin janúar-febrúar. Þetta hefur bæði sína kosti og galla. Það jákvæða er að ég þarf bæði að borga minna í leigu og matarmiða (65.þús kr. á mánuði) og get auk þess unnið í janúar og því komið fjárhagslega betur út úr þessu. Á hinn bóginn þótti mér hálft ár vera frekar stuttur tími fyrir, og nú verð ég þarna mánuði skemur.
Í augnablikinu er ég ekkert nema spennt yfir þessu. Ég geri samt ráð fyrir að þegar nær dregur muni spennan að einhverju leyti breytast í kvíða. Það eina sem ég kvíði samt fyrir er eiginlega bara að þurfa að kveðja Önna. En ég ætla að hugsa sem minnst um það og einbeita mér að því hvað þetta verður skemmtilegt. Ef allt fer að óskum mun svo Önni koma til mín þegar við höfum bæði lokið vorprófum og þá ættum við að hafa um 2 vikur til að slappa af í Bandaríkjunum.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli