sunnudagur, október 09, 2005

Strengir

Í gær fór ég að sjá dönsku myndina Strings á kvikmyndahátíð. Þetta er svona fantasíumynd og sagan per se ekki sérlega fersk, bara þetta klassíska fyrirsjáanlega ævintýri. Samt sem áður er hún afskaplega skemmtileg, fyrst og fremst vegna þess að þetta er brúðumynd. Á köflum er hún t.d. mjög hádramatísk, sem væri algjört overkill væri þetta leikin mynd, en einhvern veginn samþykkir maður dramað vegna þess að persónurnar eru brúður. Það allra ferskasta og áhugaverðasta við þessa mynd er í raun strengirnir sjálfir, því þeir spila stórt hlutverk. Í stað þess að reyna að hylja strengina er nefnilega sérstaklega vakin athygli á þeim og undirstrikað hvað strengirnir eru, eðlilega, mikilvægir í lífi strengjabrúða. Síðast en ekki síst er myndin mjög sjónræn og falleg fyrir augað. Ég tel því óhætt að mæla með henni.

Eftir myndina var sýningargestum boðið að spyrja leikbrúðustjórnandann sjálfan, Bernd Ogrodnik, spurninga. Það er alltaf hressandi að hitta á fólk sem að hefur lítið félagslegt innsæi. Ein slík kona var stödd þarna í salnum. Hún dró þá ályktun að þar sem hún væri stödd á sýningu ásamt 2-300 manns, með tækifæri til að spyrja aðstandanda verksins spurninga, þá væri nú alveg tilvalið að tala aðeins um sjálfa sig. Hún tjáði sig um hvað henni hefði nú þótt þetta æðisleg mynd, og að hún hefði ekki séð neitt svona æðislegt lengi, og að hún hefði orðið fyrir miklum áhrifum osfrv. Hún virtist hinsvegar hafa lítinn áhuga á að heyra hvað Bernd fyndist, því ekki hafði hún neina spurningu fyrir hann. Jafnframt virtist hún ekki gera sér grein fyrir að öllum í salnum var alveg nákvæmlega sama um hennar skoðun. Nokkrum mínútum seinna, þegar Bernd var að svara spurningu lítils stráks (um hvort strengirnir hefðu í alvöru náð alla leið upp í himinn) þá kallaði hún fram í

"Æ djöst hóp jú vill NEVÖR lív öss!"

Sem hlýtur að teljast mjög sérkennileg og heimskuleg athugasemd, væntanlega með vísan í búsetu hans á Íslandi. Það má hafa lúmskt gaman af fólki sem er svona félagslega bæklað, og ber ekkert skynbragð á hvað er viðeigandi að segja hverju sinni. Sjálf var ég samt fegin að þurfa ekki að bregðast við þessari yfirlýsingu, eins og Bernd gerði vandræðalega, heldur gat ég bara sokkið niður í sætið mitt með ískrandi aulahroll.

Engin ummæli: