Kökur og kruðerí
Í dag hélt kvenfélag Barðstrendingafélagsins sinn árlega basar-og kaffiboð í Djúpmannabúð. Þangað fórum við Önni með afa og fundum þar ömmu fyrir með hvíta svuntu, sem er eingöngu brúkuð við þetta tilefni. Á basarnum var boðið upp á 12 sortir og rúmlega það; rjómatertur, pönnukökur, flatkökur með kæfu eða hangikjöti, kleinur osfrv.
Meðalaldurinn hefur líklega verið um sextugt og stemninginn notaleg eftir því. Basarinn bauð upp á harðfisk, hannyrðar, notaðar bækur og sultutau. Þegar stemninginn náði hámarki hófst happadrættið. Amma og afi höfðu keypt 8 miða og við fylgdumst spennt með drættinum og töldum vinningslíkur okkar góðar, en annað kom á daginn. Mun þetta vera í fyrsta skipti sem afi fer vinningslaus heim af basarnum, en hefur alltaf verið mikið fyrir lottó og happadrætti.
Þarna hitti ég svo fyrir ekki ómerkari mann en Kolbein Sæmundsson latínu, grísku -og rússneskukennara og tókum við tal saman. Kolbeinn ólst upp á Patreksfirði til 15 ára aldurs og er virkur meðlimur Barðstrendingafélagsins. Hann mætir auk þess á öll myndakvöld Ferðafélagsins og var leiðsögumaður í ferð sem amma fór í sumar um
Syðri-Fjallabaksleið. Amma vildi meina að Kolbeinn hefði verið skemmtilegasti leiðsögumaður sem hún hefði ferðast með, og hefur hún farið ófáar ferðir.
Amma leysti okkur svo út með randalín og jólaköku í búið. Má því sannlega segja að þetta hafi verið ferð til fjár þrátt fyrir happadrættið. Það er langt síðan ég mætti síðast á atburð á vegum Barðstrendingafélagsins, en þegar ég var yngri fór ég stundum með ömmu og afa í félagsvist, auk skógræktarferðanna í Heiðmörk.
Það er gaman að því að þetta fólk skuli finna til svona samkenndar sem Barðstrendingar og rækta sambandið. Ég veit líka að amma mætir alltaf reglulega á böll með Barðstrendingunum og ég hef líka séð fyndnar myndir af skemmtikvöldi þar sem afi tók þátt í drag-skemmtiatriði, klæddur sem kona.
Það var skemmtileg tilbreyting að mæta þarna í dag, en verra er þó að ég virðist hafa borðað yfir mig af sætabrauði, enda langt síðan ég fór í kökuboð síðast, svo nú er mér hálfflökurt.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli