mánudagur, nóvember 21, 2005

Snerting

Ef ég væri þátttakandi í Ædolinu þá myndi ég ekki fíla það að vera í sífellu föðmuð af Simma og Jóa. Mér þætti óþægilegt ef þeir tækju alltaf utan um axlirnar á mér og mittið, á meðan þeir töluðu við mig á óeðlilega vinalegan hátt miðað við takmörkuð kynni. Ég myndi heldur ekki haldast í hendur við hina keppendurnar þegar við sætum fyrir dómi. Allt þetta væri "innrás" í minn persónulega radíus; loftbóluna í kringum mig, eða hvað þetta er kallað. Samt er þetta ótrúlega algengt í þessum þáttum. Sérstaklega handaböndin. Ég veit að þetta á að sýna hvað keppendur eru ofsalega samrýmdir, að þau veiti hvert öðru styrk (þótt afraksturinn sé fyrst og fremst sveittur lófi) og séu miklir vinir þrátt fyrir að vera andstæðingar. Og það er svo sem voða sætt. En ég stunda það ekki að leiða vini mína eða halda í hendurnar á þeim í tíma og ótíma. Ég held yfirleitt ekki í hendurnar á neinum öðrum en kærastanum mínum, afa mínum og pabba. Ég veit það ekki. Ég tel mig ekki eiga í neinum erfiðleikum með að mynda persónuleg tengsl við fólk, og finnst mjög eðlilegt að faðma vini mína þegar það á við. En þetta haldast í hendur dæmi...ég hefði haldið að það væri flestum Íslendingum óeðlilegt, öðrum en kjánalegum gelgjuvinkonum kannski.

Engin ummæli: