miðvikudagur, nóvember 30, 2005

Flatbaka*

Við Kári höfum komist að því að stigmagnandi hungur hámarkast í þeirri tilfinningu að engir aðrir úrkostir séu lengur í stöðunni, aðrir en að fá sér pizzu. Áður en ég fór að heiman í morgun ákvað ég að í kvöld skyldi ég sjóða ýsuna úr frystinum og borða með henni kartöflur með smjöri og salti og rúgbrauð. Þetta þykir mér afskaplega góður matur og ég hlakkaði til að setjast til matar að kvöldi. Deginum hef ég síðan eytt á bókhlöðunni og hef lítið borðað. Enda leiðist mér hversdagslegar máltíðir yfir daginn, ef ég sit ein til borðs með eitthvað óáhugavert af bensínstöðinni eða bakaríinu fyrir framan mig. Slíkar máltíðir eru til þess eins að nærast svo vinnan geti haldið áfram; ánægjan af máltíðinni er engin. Þess vegna finnst mér slíkar máltíðir í raun vera tímaeyðsla. Annað hvort vil ég borða einhvern almennilegan gourmet mat, eða helst bara sleppa því yfir höfuð. (Tæknilega séð.)
Hvað sem því líður. Vegna þess hve lítið ég hef borðað í dag er ég nú orðin alveg skelfilega svöng. Og eftir því sem hungrið eykst, dregur jafnframt úr lönguninni til að eyða tíma í innkaup og eldamennsku. Á endanum koma þeir möguleikar ekki einu sinni til greina lengur. Framkvæmdagleðin sem var kveikjan að eldamennskuplaninu í morgun er ekki lengur til staðar, hún hefur vikið fyrir vonleysi. Mér líður eins og maginn í mér grátbiðji mig um að binda skjótan endi á kvalirnar með því að panta pizzu, og það strax.

*Upphaflega var titillinn mun alþjóðlegri, en aðeins nokkrum mínútum eftir að ég birti færsluna fékk ég "spam" í kommentakerfið í fyrsta skipti. Ég veit ekki hvort það var fyrirsögnin sem vísaði helvítinu slóðina á síðuna mína, en ég kýs að hafa hana sérhæfðari til vonar og vara.

Viðbót:

Þrátt fyrir stór orð í færslunni þá leysti undirrituð málið með því að hlaupa út á bensínstöð og hakka í sig eina pulsu. Ekki eins ljúffengt og Eldsmiðjupizza, en praktískara.

Engin ummæli: