laugardagur, janúar 07, 2006

Helvítis Kanadruslur

Djöfull er pirrandi að þurfa að eiga samskipti við bandaríska sendiráðið. Ég átti þar pantaðan tíma með tveggja vikna fyrirvara, og þurfti að rífa mig á fætur án þess að hafa sofið nægju mína, til að mæta tímanlega. Þá kom hinsvegar í ljós að ég átti í raun ekki pantaðan tíma eins og ég hélt, heldur var ég bara skráð á þennan komutíma, ásamt mörgum öðrum. Það væri svo sem allt í lagi ef Bandaríska sendiráðið biðið gestum sínum upp á biðstofu, en það er ekki svo gott. Ég þurfti því að hanga fyrir utan, í slagviðri, í heilan hálftíma og var ég þá orðin blaut bæði í tærnar og hælana enda slabb úti. Fyrir innan þarf maður svo auðvitað að fara í gegnum málmleitarhliðið og taka af sér yfirhafnir með hnöppum osfrv. Það er nú svona eins og gengur, og öryggisverðirnir voru ósköp kurteisir svo ég pirraði mig lítið á því. En svo þegar ég hélt að ég væri komin í höfn og byrjuð að vísa fram pappírunum kom í ljós að mig vantaði eitt og annað, einhver útfyllt skjöl (DS-156 og DS-158) sem að ég hefði átt að prenta út á netinu, auk passamyndar og fjárhagsvottorðs. Þetta átti ég allt að vita frá einhverjum tékk-lista sem ég sá hvergi þegar ég pantaði tíma, og hef enn hvergi fundið, né heldur þessi skjöl sem ég á að fylla út af netinu. Helvítis möppufasismi á þessu liði.
Ég þurfti því frá að hverfa, blaut, köld og pirruð, og þarf að panta mér aftur tíma seinna til að geta fengið þetta landvistarleyfi.

Partý ársins

Gærdagurinn byrjaði því frekar illa, en hann endaði hinsvegar stórkostlega, í einu allra ruglaðasta partýi sem ég hef farið í lengi. Það var kveðjupartý Önnu Samúelsdóttur, en hún fer í fyrramálið til Danmerkur í Lýðháskóla. Þema partýsins var hallæri og gerði mikla lukku. Þegar leið á kvöldið hefði mátt ætla að partýgestirnir væru allir með tölu á englaryki, því stemninginn var mjög súrrealísk. Hallærið var útfært á marga góða vegu, en Elín Lóa og Snæbjörn toppuðu þó alla, í gervi sambrýnds, hvítarusls, vörubílstjórapars. Meðal annarra búninga má nefna grænröndóttan óléttusamfesting; baby-spice átfitt; ósamstæð jakkaföt við hvíta sportsokka; þröngan, gamlan landsliðsjogging galla ofl. Skrautlegt í einu orði sagt. Og búningarnir gerðu það einhvern veginn að verkum að fólk var í karakter allt kvöldið og sleppti sér gjörsamlega í skjóli hallærisins. Ég hlakka til að sjá myndirnar.

Engin ummæli: