þriðjudagur, janúar 03, 2006

Almennt

Það er nú svona með bloggið eins og annað að það vill lognast aðeins út af í jólafríinu. Tölvan mín dvaldist auk þess löngum stundum í Mosfellsveit á meðan ég var í Reykjavíkinni og því lítið um netvafur. Það þýðir þó ekki að ég hafi ekkert haft fyrir stafni. Til dæmis hef ég lesið fjórar bækur í þessu fríi. Ég tók því feginst hendi að snúa mér að íslenskum bókum til tilbreytingar. Að minnsta kosti síðustu 10 bækur sem ég las voru á ensku, bæði skólatengdar og ekki. Reyndar man ég ekki eftir að hafa lesið neina bók á íslensku síðan ég las Samkvæmisleiki í síðasta jólafríi, en ég efast þó um að það sé rétt munað.
Mér fannst því fínt að taka mér frí frá enskunni, og jafnframt frá fagurbókmenntunum. Ég byrjaði á að lesa Arnald, sem ég hef lítið kynnt mér hingað til. Ég valdi mér að lesa Mýrina, því nú fer að koma bíómynd eftir henni, og Grafarþögn, því hún fékk Gullrýtinginn. Þær voru báðar bara mjög skemmtilegar, þó fannst mér Grafarþögn betri. Næst las ég Argóarflísina, eftir Sjón, sem ég fékk í jólagjöf og hún var nokkuð góð. Núna var ég svo að klára Gæludýrin, eftir Braga Ólafs, sem ég keypti mér og hún fannst mér alveg frábær.
Jólin voru óhefðbundin í ár að því leyti að öll jólaboð voru afboðuð, bæði í minni -og Önna fjölskyldu. Eins og venjulega var þó töluvert spilað; bæði Pictionary, Gettu betur spilið, Trivial og Kvikmyndaspilið, sem olli mér reyndar vonbrigðum. Samt er ég eiginlega ekki alveg búin með spilakvótann, enda hefur oft verið spilað meira, og væri ég því alveg geim í eitt gott kvöld í viðbót yfir spilum.
Ekki get ég heldur neitað því að hafa horft mikið á sjónvarp; aðallega á næturna þó. Þannig tókst mér einhvern veginn að missa af öllu sem kallast gæti jóla-og áramótadagskrá. Ég sá enga annála, eða jólakvikmyndir, eða leikið íslenskt efni, Kryddsíldina né nokkuð annað. Það var varla að ég enntist yfir áramótaskaupinu, enda þótti mér það leiðinlegt.
Fyrstu tvö árin mín í bloggheimum gerði ég áramótauppgjör, aðallega fyrir sjálfa mig frekar en aðra, en ég veit ekki hvort ég nenni því núna. Árið 2005 var þó gott í alla staði, viðburðaríkt og skemmtilegt. Þetta ár verður óvenjulegt framan af. Skólinn fer nú að hefast hjá flestum, en ég verð hinsvegar í fríi til 25.janúar þegar ég fer út. Ég mun því hafa nógan tíma til að snatta, sýsla, dúlla mér, og hugsanlega blogga, á næstu dögum.

Engin ummæli: