Pabbi hetja
Dagurinn í dag átti að verða upphaf framkvæmdatímabilsins og marka lok jólafrísins. En ekki vill betur til en svo að ég er komin með hettusótt, og dregur það eitthvað úr framkvæmdum. Ég er inni í þessum árgöngum sem ekki fengu bólusetningu á sínum tíma, en þrátt fyrir að þetta hafi verið að ganga undanfarið trassaði ég það að sjálfsögðu að láta sprauta mig, enda sannfærð um að ég yrði ekki ein þeirra sem veiktist. Ég taldi mig líka hafa sloppið vel að smitast ekki af Sturlu bróður, en hann var víst einn þeirra sem kom með vírusinn með sér, frá London í maí 2005. Í gær fór ég hinsvegar að finna fyrir eymslum við kjálkann og á miðnætti var ég orðin stokkbólgin og aum upp undir eyra.
Hettusóttinni fylgir vægur hiti, a.m.k. í mínu tilfelli, en hún á víst að leggjast mun harðar á karlmenn heldur en konur. Kannski var það vegna hitans sem að mér leið svona undarlega í morgun, en þá leið yfir mig í fyrsta skipti á ævinni. Þótt yfirlið séu kannski ekki hættuleg per se, þá geta afleiðingar þeirra samt verið slæmar. Pabbi slapp til dæmis naumlega snemma í haust, þegar hann fór á fætur um miðja nótt til að fara á klósettið. Hann var eitthvað slappur, og þegar hann kom inn leið yfir hann, með þeim afleiðingum að höfuðið á honum skall í baðkersbrúnina. Mamma fór að vitja hans stuttu seinna og kom að honum liggjandi á gólfinu í blóðpolli.
Þannig hefði ég getað skollið með höfuðið á bókahilluna á ganginum, þegar leið yfir mig í morgun, ef pabbi hefði ekki komið til bjargar. Hann hafði komið við hjá okkur til að sækja belti sem Kári fékk lánað hjá honum og var á leiðinni út þegar mig fór að svima, og settist í stigann. Pabbi sagði mér að drífa mig inn í rúm og leggjast niður, og hann vildi að ég gerði það áður en hann færi svo hann vissi að ég hefði komist alla leið. Ég stóð því upp og ætlaði í átt að svefnherberginu, en rankaði næst við mér þar sem ég lá á gólfinu og kúgaðist, pabbi krjúpandi yfir mér. Hann hafði þá verið á leiðinni út um dyrnar þegar ég hrundi niður, og hann stökk til og greip mig í fangið. Gott að eiga góðan pabba.
En nú er ég sem sagt úr hettusótt og mér hefur verið bannað að fara út úr húsi. Ég ligg því uppi í sófa, undir sæng, með kanínuskinnið mitt góða um hálsinn, og bíð þess að þetta gangi yfir.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli