Íslendingur
Það er fyndið hvað sú staðreynd að ég er Íslendingur spilar stórt hlutverk í mínum persónuleika hérna úti. Bæði hvað varðar viðhorf annara gagnvart mér (flestir eru að hitta Íslending í fyrsta skipti og finnst það merkilegt), og hvernig ég sé mig í samanburði við hina. Sérstaða mín sem Íslendingur er í fyrsta lagi sú að hér er enginn annar sem talar mitt tungumál. Flestir eða allir hinna erlendu stúdentanna hafa einhvern annan á campus sem talar sama tungumál. Ég hef lent í því að vera í hóp af krökkum sem byrjuðu smám saman að tala sín á milli á sínum tungumálum; svissneska stelpan og sú franska töluðu saman á frönsku, þær hollensku á hollensku, Jennifer frá Úrúgvæ og Pablo frá Hondúras á spænsku. Og ég sat ein með íslenskuna mína og gat engan spurt hvernig þetta eða hitt íslenska orð væri á ensku, eða hlegið að sameiginlegum brandara sem ekki var hægt að þýða.
Ég kvarta þó ekki, því mér þykir afskaplega skemmtilegt að hafa íslenskuna út af fyrir mig. Að kunna íslensku er eins og að tala eitthver leynimál, dulmál sem aðrir hafa ekki aðgang að. Þannig þarf Johnanna að hugsa um hvað hún segir í símann við kærustuna sína þegar ég er inni á herberginu, en ég get talað eins og mér sýnist við Önna yfir skype því enginn annar skilur mig. Það eru mikil forréttindi.
Og það eru ekki einu forréttindin sem fylgja því að vera Íslendingur. Mér hefur til dæmis verið tíðrætt um hversu ódýrt margt er hérna, en aðrir eru ekki sammála mér. Að vísu varpar það ljósi á það hversu ömurlega dýrt Ísland er, en að sama skapi líka hversu vel ég stend fjárhagslega. Aleksandr frá Rússlandi er mjög áhugasamur um Ísland og hefur spurt mig í þaula um stjórnarfar, efnahag og fleira. Hann vildi m.a. vita hver meðallaunin á Íslandi væru. Ég gat nú ekki alveg fullyrt um það, en nefndi þó að ég væri með ca. 30 $ í tímakaup í minni vinnu. Þetta fannst Aleks merkilegt og benti mér á til samanburðar að meðallaunin í Rússlandi væru um 1$ á klukkustund. Þannig áttaði ég mig á því hversu ólík staða okkar Aleksandrs er hérna. Á meðan ég veifa kreditkortinu í allar áttir notast hann við ávísanahefti af bankareikning sem fjölskyldan hans í Rússlandi leggur inn á til að styrkja hann.
Vinsælasta vefsíðan meðal nemenda hérna kallast Facebook, og er sambærileg við MySpace nema hvað einungis háskólanemar í BNA hafa aðgang að kerfinu. Þarna eru allir með sinn prófæl, svo að sjálfsögðu skráði ég mig. Ég hafði þá ekki tekið neinar myndir hér enn og setti því inn myndir frá Íslandi; fyrst og fremst úr Vestfjarðaferð fjölskyldunnar 2004. Þvílík viðbrögð sem ég fékk. Fólki finnst myndirnar alveg ótrúlega magnaðar og fallegar og margir hafa komið til mín og sagst vilja fara til Íslands eftir að hafa séð þær.
Sjálfri finnst mér æðislegt að ferðast um Ísland og finnst það alltaf jafn dásamlega fallegt. Samt gerð ég alls ekki ráð fyrir þessum undirtektum, því þótt mér finnist Ísland fallegt er það samt kunnuglegt fyrir mér, venjulegt jafnvel. Þannig er auðvelt að gleyma hversu óvenjulegt og “AMAZING!” þetta landslag er í augum annarra. Ég held það sé auðnin og óbyggðirnar sem höfða svona til þeirra og er þeim framandi.
Allt þetta gerir það að verkum að mér finnst gaman að vera Íslendingur og finnst ég vera voðalega einstök. Þess fyrir utan þá er ég nú líka alltaf með örlitla, undirliggjandi heimþrá. Þótt ég reyni að halda öðru fram þá sannast það meðal annars í því hversu mikla þörf ég hef fyrir að hlusta á íslenska tónlist; ég hlusta varla á neitt annað. Ég hlakka til næsta ferðalags út á land í sumar.
Þótt þjóðerniskennd sé kannski umdeilanleg tilfinning þá get ég ekki þóst vera laus við hana. Ég er þakklát fyrir að vera ein af sárafáum sem eiga örlítinn, persónulegan skerf í þessu merkilega fyrirbæri sem Ísland er.
NB. Nýjar myndir eru komnar á myndasíðuna.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli