sunnudagur, febrúar 12, 2006

Sigurrós

Undanfarna daga hef ég hlustað mjög mikið á Sigurrós. Þegar ég var í 10.bekk hlustaði ég ekki á neitt annað allan veturinn en Ágætis byrjun. Þá átti ég að vísu engan i-pod, né geisladiskaspilara, svo spilunin var takmörkuð við heimili mitt. Fermingargræjurnar voru því óspart notaðar, en ef ég var ein heima notaði ég frekar græjurnar í
stofunni. Stundum reyndi ég að hlusta yfir námsbókunum en það hefur aldrei gefist vel fyrir mig. Hugsanlega myndi það ganga ef ég væri ein í gluggalausu herbergi, en þar sem stofugluggarnir heima eru frekar stórir átti ég það til að sitja tímunum saman, hlustandi á tónlist og horfandi út í garð. Garðurinn okkar í Mosfellsbænum er líka mjög fallegur. Þess á milli stóð ég upp og gekk fram og til baka um húsið. Stundum fylltist ég svo mikilli orku við að hlusta á tónlistina að ég byrjaði að taka til af miklum krafti til að beina orkunni eitthvað. Þá hefði verið gott að geta dansað. Ég var kannski ekki nógu langt komin í tjáningarþroska til að gera eins og pabbi; hann nýtur tónlistar með því að fara úr að ofan, loka augunum og sveifla sér í takt við tónlistina. Eins og hann baði sig í henni. Kannski myndi ég gera það sama núna, ef ég væri ekki stödd á bókasafni.

Eftir busaárið mitt í MR gáfu fermingargræjurnar mínar upp andann og þar með dalaði tónlistaráheyrn mín mikið. Ég eignaðist ekki aðrar græjur fyrr en í hitteðfyrra þegar Ragnar kom færandi hendi með i-podinn, sem er mér sérstaklega góður vinur hérna í Ameríkunni.

Undanfarin 5 ár hef ég bara hlustað á Sigurrós öðru hvoru, en ekki jafnstíft og á sextánda árinu. Núna hafa þeir hinsvegar náð svolitlum tökum á mér aftur. Nýjasta diskinn þeirra, Takk, hafði ég lítið hlustað á, en nú er ég alveg húkkt á honum. Mér finnst gott að byrja daginn með þeim, þegar ég geng út í sólina til að fara í morgunmat. Síðan ég kom hingað hefur verið stanslaust sólskin og logn upp á nánast hvern einasta dag og mér finnst Sigurrós eiga einstaklega vel við skapið í mér þegar ég geng úti. Margrét hefur sagt að Sigurrós höfði ekki til hennar, nema í samspili við dans, t.d. Ég er ekki sammála, því fyrir mér er Sigurrós hið fullkomna undirspil í einverunni. Yfirleitt hef ég ekki nennt að hlusta á þá nema ég sé ein. Hvort sem ég er keyrandi eftir Sæbrautinni á leiðinni heim úr IKEA, eða gangandi eftir götum Minnesota. Og þó mér finnist lögin þeirra misgóð þá eru þau mörg sem fá mig til að horfa dreyminn út um gluggann með hroll niður eftir bakinu. Eins og núna. Tilraun til að lesa hina ömurlega leiðinlegu bók Communication Theory; Analysis and Application, fór út um þúfur þegar lagið Glósóli hófst. Þegar ég hlusta á það langar mig til að breiða út faðminn og hlaupa blindandi niður grasbrekku.
Það er hinsvegar nokkrum erfiðleikum bundið þar sem tvíburaborgirnar eru byggðar á sléttlendi. Auk þess gæti það farið illa með i-podinn. Svo það er best að gleyma þessu bara. Og halda áfram að læra.

Engin ummæli: