Dagbókin hans Dodda
Þetta var víst fyrsta teiknimyndaserían sem Nickelodeon framleiddi, og var hún sýnd á RÚV þegar ég var lítil. Doddi og Snúður vinur hans áttu sér uppáhaldshljómsveit, og á milli þess sem hann lét sig dreyma um Beggu Majónes sungu þeir félagar lagið “A-í-ú borðum rófur, a-í-ú, borðum rófuuuur!!” við miklar undirtektir okkar systkinana heima í stofu. Seinna tók Stöð 2 þennan þátt til sýninga og var hann þá kallaður Dagbókin hans Dúa. Kannski varð áherslubreytingin vegna þess að Disney hafði tekið yfir framleiðsluna um þetta leyti. Flutningnum yfir á Stöð 2 fylgdu samt fleiri breytingar, því nú sungu þeir Doddi/Dúi og Snúður ekki lengur um að borða rófur, heldur sagði textinn, ef ég man rétt, “A-í-ú, baunasúpa, a-í-ú, baunasúpaaaa!” Við Kári og Brynhildur vorum ekki sátt við þessa þýðingu., en á frummálinu hét lagið víst Killer Tofu.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli