laugardagur, desember 30, 2006

Myrkfælni

Eins og áður hefur komið fram á þessu bloggi hef ég auka-aukavinnu af skúringum, í stórri skrifstofubyggingu á Lynghálsi. Stundum hefur mér fundist óþægilegt að skúra þar seint á kvöldin, en get þó oftast leitt það hjá mér með því að hlusta á tónlist í poddaranum. Í gærkvöldi var ég að skúra um níuleytið, þegar ég varð vör við það að lyftan virkaði ekki. Ég var uppi á 5.hæð og þurfti að koma skúringavagninum á milli hæða en lyftan opnaðist ekki. Ég hljóp því niður á 4.hæð til að athuga hvort takkinn virkaði þar en það var sama sagan. Svo þegar ég kom aftur upp á fimmtu hæð varð húsið skyndilega almyrkvað og á sömu stundu slökknaði rafsegullinn sem hélt hurðinni að skrifstofuganginum opinni, svo hún skall aftur. Ég stóð sem sagt þarna í rafmagnsleysinu með moppuna í annari hönd og ruslapokann í hinni, og fékk svitakast af stressi. Í ofanálag var líka brjálað veður úti og umferðarkeilur sem fuku um bílaplanið.
Mér varð hugsað til þess að hefði ég verið 3.mínútum fyrr á ferðinni hefði ég mögulega verið inni í lyftunni þegar allt datt út.

Annars veit ég ekki hvað það var nákvæmlega sem ég óttaðist, en það er bara einfaldlega óþægilegt að vera aleinn í stóru húsi í kolniðamyrkri. Það var eins og ég byggist sífellt við því að heyra einhvern koma upp stigann, eða að einhver stykki á mig úr myrkrinu. Ég hringdi því í Elínu Lóu, skúringafélaga minn, til að róa taugarnar með spjalli á meðan ég þreifaði fyrir mér í myrkrinu til að ganga frá skúringagræjunum. Samt sem áður var ég með hraðan hjartslátt og svita á enninu þegar ég gekk niður myrkvaðan stigaganginn í anddyrið á jarðhæðinni, þar sem ég beið í tæpar 15 mínútur eftir að Kári kæmi að sækja mig. Þótt skynsemin segði mér að það væri ekkert að óttast gat ég samt ekki hamið óttaviðbrögðin í líkamanum. Þetta var frekar óþægileg upplifun.

Engin ummæli: