fimmtudagur, janúar 11, 2007

Að ver’í sambandi við annað fólk

Á morgun hefst fyrirhuguð viðgerð á Cantat-3 sæstrengnum. Eins og einhverjir muna kannski bilaði hann stuttu fyrir jól með þeim afleiðingum að netsamband við umheiminn rofnaði í einhverjar klukkustundir. Á Freyjugötunni erum við Önni með tengingu í gegnum RHÍ, sem fer illa út úr þessum bilunum því Rhnet er ekki með varatengingu í gegnum Farice strenginn. Þegar netið datt fyrst út, skömmu fyrir miðnætti þarna í desember, þá var ég einmitt á netinu og skýring á þessu kom ekki fram fyrr en daginn eftir á Mbl, þar sem sagði að bilunin gæti varað í 2-3 vikur. Yfir þessu fékk ég vægt áfall í vantrú, enda gat ég varla ímyndað mér að ég myndi lifa af sambandsleysi við umheiminn í svo langan tíma. Sem betur fer kom ekki til þess í það skiptið.

Nú segja þeir að viðgerðin á strengnum hefjist á morgun og vari mögulega í 10 daga. Ég veit ekki hvort þetta þýði að háskólinn og heimili mitt verði algjörlega ótengd við útlönd á meðan, eða hvort aðeins verði hnökrar og tafir á sambandinu. Það verður að koma í ljós. Þetta minnir mann illþyrmilega á að við búum á eyju lengst norður í Atlanshafi, þótt maður vilji gjarnan hunsa þá staðreynd.

Beygingarmynd dagsins: þaullesnar

Engin ummæli: