sunnudagur, febrúar 11, 2007

Úti er ævintýri

Klósettlesningin um þessar mundir er bókin Íslensk úrvalsævintýri sem m.a. inniheldur söguna af Fóu og Fóu feykirófu. Það er þrennt sem mér finnst sérstaklega skemmtilegt í þeirri sögu. Í fyrsta lagi endar óbermið Fóa feykirófa lífið í kraumandi grautarpotti og líkinu er síðan hent út í á. Það var ekkert verið að fegra hlutina í þessum gömlu ævintýrum. Í öðru lagi felst hinn hamingjusamlegi endir í því að Fóa, sem endurheimti hellinn sinn eftir dauða nöfnu sinnar feykirófu, giftist hrút. Í þriðja lagi er þetta furðulega hjónaband ekki útskýrt neitt frekar, því ævintýrinu er slúttað mjög snögglega með orðunum “Svo er það búið.”
Í gærkvöldi las svo Önni með tilþrifum fyrir mig söguna um Gípu sem, auk áfasopa og lambabita, gleypti tvo hrafna, tvær mýs, tólf trippi, þrettán kálfa, mann, hund, broddstaf, hundrað kindur, bát og átta sjómenn sem sögðu bara “allabaddarí, fransí” því þeir töluðu allir golfrönsku. Og nei við stundum það ekki að lesa hvort annað í svefn. Það gæti þó breyst ef við finnum fleiri svona sturluð ævintýri.

Beygingarmynd dagsins: urrara

Engin ummæli: