miðvikudagur, maí 09, 2007

Bílastæðavandinn

Nú hef ég búið í miðborg Reykjavíkur í tæp tvö ár. Á þessum tíma hef ég aldrei nokkurn tíma lent í því að fá ekki stæði heima hjá mér, jafnvel þótt ég búi beint á móti Eldsmiðjunni, sem er einn vinsælasti pizzastaður í bænum. Oftast fæ ég stæði rétt fyrir utan heimili mitt, en ef þar er fullt get ég annað hvort lagt rétt handan hornsins, á Njarðargötu, eða á Freyjugötu hinum megin Njarðargötu. Hvar sem ég enda er það aldrei meira en 2 mínútna ganga í mesta lagi upp að dyrum. Aðra hverja viku vinn ég meira að segja á kvöldvöktum til miðnættis, og er því komin heim þegar klukkan er um kortér gengin í eitt, en fæ þó alltaf stæði. Það hefur þess vegna aldrei komið til þess að ég þurfi að leggja ólöglega; uppi á gangstétt eða fyrir framan brunahana. Samt sé ég á hverjum degi bílstjóra sem gera einmitt það.

Sömu sögu má segja um Bókhlöðuna. Hana ef ég stundað reglulega í...jah...5 ár eða svo og alltaf fengið stæði. Þótt allt sé fullt við fyrstu sýn nægir yfirleitt að sirkúlera í 3-4 mínútur og þá losnar alltaf eitthvað. Í einstaka undantekningartilfellum hef ég þurft að leggja við austurhliðina á hótel sögu. Samt sem áður er alltaf nóg af liði sem leggur upp á kanti, á gangstéttareyjum eða utan í runna og þröngvar þannig einstefnuumferð upp á þá sem á eftir koma. Ég horfi upp á þetta fólk leggja svona, klukkan hálfníu á morgnana, jafnvel þótt það sé fullt af lausum stæðum í kring. Hvað er að þessu fólki? Ég dreg þá ályktun að það sé ákveðið karaktereinkenni hvort þú leggur bara þar sem þér sýnist, ólöglega, og ert þar með fyrir öðrum, eða hvort þú nennir að eyða tveimur umfram mínútum í að leggja eins og maður.

Svo ég tali nú ekki um þá sem virðast ekki kunna að bakka í stæði, eða finnst eitthvað hallærislegt að rétta bílinn sinn af og leggja þess vegna rammskakkt þannig að hann skagar fram á gangstéttina og lokar henni fyrir gangandi vegfarendum. Eða, það sem verra er, þannig að bíllinn stendur fram á götuna og lokar henni fyrir umferð. Það hef ég tvisvar séð á Freyjugötunni og í annað skiptið vildi það bílstjóranum til happs að hann kom hlaupandi út af Eldsmiðjunni akkúrat þegar við Önni vorum að hringja eftir dráttarbíl. Í hitt skiptið var hægt að smeygja meðalbreiðum bílum framhjá með lagni og slapp fíflið því við dráttarbílinn en fékk í staðinn vinsamlega athugasemd undir rúðuþurrkuna.

Jájá ég veit að þetta er ekkert skemmtilegt færsla en það er heldur ekkert skemmtilegt að geta ekki keyrt inn götuna sína út af svona bjánum. Svo ef þú ert einn af þeim sem nennir ekki að leggja sómasamlega í stæði, taktu þig saman í andlitinu og sýndu smá tillitsemi.

Engin ummæli: