fimmtudagur, maí 17, 2007

Kreditkort

Það er sérstakt, hið óttablandna viðhorf sem margir hafa til kreditkorta. Maður heyrir ósjaldan af fólki sem treystir sér ekki til þess að fá sér kreditkort því þá muni allt fara til fjandans og skuldirnar safnast upp. Ég ætla ekki að fara út í hvað það er kjánalegt að þykjast ekki vera sjálfrátt og kenna kortinu um slæmar ákvarðanir í fjármálum; en ég skil ekki þetta viðhorf að debetkort séu allt í lagi á meðan kreditkort séu verkfæri djöfulsins.

Sjálf skipti ég debetinu algjörlega út fyrir kreditið fyrir um 2 árum síðan og finnst ég hafa miklu betri stjórn og yfirsýn yfir eyðsluna þannig. Það er mjög fjarri mér að detta í subbulega ofneyslu og benda svo grenjandi á plastið sem sökudólg. Ég veit nákvæmlega hverju ég hef innistæðu fyrir að eyða og nota kortið í samræmi við það. Aðalreglan sem ég reyni að fylgja er að reikningurinn verði í mesta lagi jafnhár launaútborgun næstu mánaðamóta og helst lægri. Þannig held ég mér á floti. Ég lít ekki svo á að ég sé í mínus með því að nota kredit, heldur sé ég þetta sem samhliða ferli. Bankareikningurinn minn stendur algjörlega í stað yfir mánuðinn, svo um mánaðamót kemur launaseðill inn og kreditreikningur fer út. Þannig finnst mér mjög auðvelt að hafa yfirsýn yfir mánaðaútgjöld vs. innkomu án þess að standa í neinum útreikningum. Auk þess er hægt að setja sér fyrirfram hömlur, ákveða að hafa heimildina ekki hærri en t.d. 100 þús (þótt inneign á bankareikning sé kannski 300þús) svo kortið stoppi þig af áður en þú ferð að eyða meira af reikningnum en þú kærir þig um.

Svo eru það færslugjöldin. Á síðasta tímabili t.d. renndi ég kortinu mínu 75 sinnum í posa, sem þýðir að ef ég notaði debet greiddi ég aukalega 975 kr. fyrir mánuðinn, m.v. 13kr. færslugjöld. Þetta væru þá 11.700 krónur á ári í kostnað fyrir að nota debet, en á kreditkortum eru engin færslugjöld. Fyrir utan FIT-kostnaðinn, sem er a.m.k. 750kr. per færslu ef farið er yfir á debetkorti. Eins og svo margir er ég með frítt árgjald á kreditkortinu og ber þess vegna engan kostnað af því. Hinsvegar græði ég í ferðaávísuninni, sem safnast upp, 4 kr. á móti hverjum 1000 og þ.á.m. af föstum greiðslum eins og síma, hita og rafmagni sem fer allt sjálfkrafa út af kortinu mínu.

Ég get kannski trútt um talað meðan ég þarf aðeins að sjá um sjálfa mig. Ég geri mér grein fyrir að einhvern tímann mun sjálfsagt koma tímabil þar sem hallar meira undan fæti hjá mér í fjármálum, en ég lít þá svo á að ég sé núna að byggja mér upp gott kredit áður en að því kemur. Eins og staðan er núna sé ég því ekkert nema ókosti við að nota debetkortið og læt það fegin rykfalla fyrir Mastercard.

Engin ummæli: