mánudagur, ágúst 13, 2007

Holland

Í gærkvöldi kom ég heim frá Hollandi eftir að hafa eytt þar tæpri viku í góðu yfirlæti. Ég gisti til skiptis hjá vinkonum mínum Hil-May sem býr miðborg Amsterdam og Jantien sem býr í Amstelveen, nágrannabyggð sambærilegri við Kópavog. Mestallan tímann vorum við í Amsterdam, sem er falleg og skemmtileg borg. Þar er þægilegt að vera ferðamaður því stutt er á milli staða og auðvelt að ferðast um hvort sem er gangandi, í strætó, lest eða hjóli. Undir handleiðslu hinna sjóuðu Amsterdam búa leigðum við Elise, sem var líka í heimsókn frá Frakklandi, reiðhjól sem er án efa skemmtilegasta leiðin til að komast á milli staða. Við skoðuðum allt það helsta; hús Önnu Frank, Van Gogh safnið, Rauða hverfið, skipaskurðina og húsbátana. Í gær keyrðum við svo út fyrir borgina eftir endalausri flatneskju og kíktum á vindmyllur og láglendið sem er undir sjávarmáli.

Holland er auðvitað ekki sérlega framandi sem slíkt, en eins og alltaf eru samt alls konar litlir hlutir sem koma manni spánskt fyrir sjónir. Arkitektúrinn er mjög krúttlegur, öll löngu og mjóu steinhúsin sem halla fram á við, með gluggahlerum og háu risi. Hollensk matargerð er hinsvegar ekki spennandi eða fersk. Fyrsta kvöldið fóru stelpurnar með okkur á veitingastað sem þær sögðu gríðarvinsælan meðal háskólanema, þar væru ódýrir og fjölbreyttir réttir. Ég hugsaði þá sem svo að þetta væri eflaust svipað Vegamótum, en matseðillinn kom mér skemmtilega á óvart. Að undanskildum þremur salatréttum var bara boðið upp á rétti eins og svínaschnitzel, stroganoff, nautabuff í brúnni sósu etc. Ekkert pasta, enginn hamborgari, ekkert burrito. Ég kvarta samt ekki enda fannst mér ljómandi gott að fá schnitzel með piparsósu, franskar, hrásalat og kaldan Heineken fyrir tæpan þúsund kall.

Á fimmtudagskvöldið fórum við á næturklúbbinn Paradiso, sem stelpurnar sögðu einn þann vinsælasta og mest hip og kúl í Amsterdam. Lonely Planet lýsir honum sem “the city’s best (and legendary) music venue” og þar eru oft góðir tónleikar. Eftir þá tekur hinsvegar ógeðslega leiðinleg júró-tekknó-hás tónlist við og hún var að gera mig brjálaða. Eftir um klukkutíma samfellt bít heyrðust skyndilega kunnuglegir tónar þegar spilað var lag með Franz Ferdinand og þá lifnaði yfir mér. Um leið dó hinsvegar stemningin á staðnum. Ég söng með og dansaði í góðu stuði yfir laginu eina á meðan restin af þvögunni stóð kyrr og saup á bjórnum sínum. Svo tók tekknóið við aftur og þá var eins og ýtt væri á takka og allir byrjuðu aftur að hoppa. Það áhugaverðasta við þennan skemmtistað var annars að hann er í gotneskri kirkju og trylltasti dansinn var uppi á svölunum og frammi við altarið.

Það besta við ferðina var svo auðvitað að hitta stelpurnar aftur. Um leið og við hittumst duttum við í sama farið aftur og það var eins og við hefðum hist síðast í gær, en ekki fyrir rúmu ári síðan. Það var líka gaman að fá að sjá Jantien og Hil-May á heimavelli, hitta meðleigjendur þeirra, kærasta, foreldra og vini. Þær voru líka frábærir gestgjafar og ég hlakka til að endurgjalda þeim greiðann einhvern daginn þegar þær koma að heimsækja mig. Eftir árs bið liðu þessir dagar mjög fljótt og það var erfitt að kveðjast aftur á flugvellinum, vitandi að nú liði aftur ár þar til við sæjumst aftur. En við stefnum að endurfundum næsta sumar í Salamanca á Spáni, auk heimsóknar yfir landamærin til föðurfjölskyldu Elise í Portúgal. Þá verður Jennifer líka með í för en hún komst ekki frá Úrúgvæ til að hitta okkur núna og var sárt saknað.

Annars er ég mjög glöð að við létum verða af því að hittast, og líka að Pablo skyldi koma til mín í maí. Það er nauðsynlegt að hittast aftur og gera nýja hluti saman til að viðhalda vináttunni, því við getum ekki endalaust lifað á minningum frá Bandaríkjunum.

Engin ummæli: