laugardagur, júlí 28, 2007

Elsku Harry Potter - Engir spoilerar

Þá er ég búin með Harry Potter. Ég er ánægð með síðustu bókina, hún er alveg frábær. Líklega sú besta. Þetta er skrýtin tilfinning samt, svolítill tómleiki. Ég samsama mig ekki með þessum sjálfskipuðu heitustu Potter aðdáendum sem biðu í röð í sólarhring til þess eins að klára bókina í einum rykk á einni nóttu. Þegar ég rölti út til að kaupa bókina síðasta föstudagskvöld sá ég raðir af krökkum sitjandi á gangstéttinni meðfram Laugavegi, strax byrjuð á lestrinum. Þannig vil ég ekki hafa þetta, þvílíkur misskilningur. Ég hef alltaf dregið mig í hlé með hverri bók og átt kyrrðarstund með Harry. Þetta er svolítið eins og að njóta góðrar máltíðar. Nautasteikur. Ég vil smjatta á hverjum bita af Harry og njóta hans eins lengi og ég get áður en ég kyngi honum. Ekki síst með The Deathly Hallows, því hún var síðasta tækifærið. Síðasta kvöldmáltíðin. Nú fæ ég aldrei að njóta Harry Potter í fyrsta skipti aftur. Ég reyndi að treina mér hana eins og ég gat en í dag gat ég ekki hætt, ég las og las og las og kom of seint í vinnuna af því að ég var búin að vera með spennuhnút í maganum í tvo klukkutíma og varð að klára.

Harry Potter var með mér öll unglingsárin mín og upp úr. Ég byrjaði að lesa hann 14 ára gömul og nú er ég 22 ára þegar ævintýrið klárast en ég fell samt ennþá í nákvæmlega sama gírinn við lesturinn. Harry, Ron og Hermione voru vinir mínir og mér þykir óendanlega vænt um þau. Mér þykir líka vænt um að geta ennþá horfið inn í þennan heim og verið algjörlega heilluð og grátið og hlegið. Ég þurfti ennþá stundum að loka bókinni og leggja hana frá mér til þess að draga andann áður en ég gat haldið áfram. Ég er svo þakklát fyrir að geta það ennþá, því á einhverjum tímapuntki varð ég hrædd um að ég yrði kannski of fullorðinn til að geta fylgt Harry eftir til enda og drukkið hverja síðu í mig af áfergju. En ég lít á það sem hæfileika, eða a.m.k. stóran kost, að geta gleymt stund og stað yfir bók og þótt svona ótrúlega vænt um persónurnar að mig verkjar og lengir eftir þeim. Lífið væri fátæklegra án þess. En nú er Harry Potter farinn frá mér og ég mun aldrei aftur geta sökkt mér í ævintýrin hans án þess að vita hvað gerist á næstu síðu. Það er glatað. En það var gott á meðan það entist, í átta ár. Ó svo gott.

Engin ummæli: