Kraps in the krapsen
Ég var orðin frávita af bræði og byrjuð að svitna yfir grafískum hugsunum um hvernig ég skyldi draga einhvern til ábyrgðar fyrir sprungið gatnakerfi. Enda er ég alveg sannfærð um að þetta var enn einn liður í samsæri ríkisins til að hindra mig í að kaupa mér vín, því þegar ég loksins losnaði var klukkan orðin 18 og Heiðrún þá að sjálfsögðu lokuð.
Þá tók Krónan við og ekki var það nú skárra. Ég veit fátt meira pirrandi en lágvöruverðsverslanir á háannatíma. (Ef ég þyrfti að nefna eitthvað sem gæti verið meira óþolandi er það mögulega að sitja föst í umferðarteppu.) Það versta er reyndar að fara beint í lágvöruverðsverslun, svangur úr vinnunni og eiga eftir að fara heim að elda eitthvað. Þá gerist líka alltaf eitthvað ömurlegt eins og að lenda á langhægustu röðinni afþví að manneskjan á undan borgar allt í klinki. Eða að maður er alveg að komast að kassanum eftir langa bið þegar einhver lítil gelgja kemur og lokar honum og opnar næsta við hliðina, svo allir sem voru á eftir manni í röðinni flykkjast þangað og maður lendir aftur aftast.
Þegar ég var svo búin að borga fyrir tvo fulla innkaupapoka í Krónunni átti ég eftir að fara að skúra. Ekki það skemmtilegasta. Þar náði ég reyndar að kæla mig aðeins niður með því að hlusta á Van Morrison. Blóðþrýstingurinn rauk samt aftur upp á leiðinni heim þegar einhver ungur fáviti í jakkafötum keyrði næstum því inn í hliðina á mér á Miklubraut því honum lá svo á að taka fram úr öllum sem á vegi hans urðu. Ég barði náttúrulega flautuna á eftir honum og horfði illilega á fíflið þegar ég lenti við hliðina á honum á næstu ljósum.
Sem betur fer hafði ég haft vit á því að skella í mig einni Bæjarins bestu áður en ég lagði af stað í leiðangurinn, því ég hefði ekki lifað þessar raunir af á fastandi maga.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli