fimmtudagur, október 25, 2007

Það eru þessir litlu hlutir

Fyrir stundu fór ég í Krónuna til að kaupa í matinn og náði þar hinni fullkomnu, ökónómísku röðun ofan í annan pokann. Rými hans var nýtt til hins ítrasta, án þess þó að hann yrði úttroðinn, jafnvægi léttra og þungra eininga var með besta móti og hver og ein matvara var kyrfilega niðurnjörvuð og haggaðist ekki á leiðinni heim. Þetta veitti mér talsverða gleði á annars grámóskulegum degi. Einnig gladdi það mig að geta keypt stóran brúsa af handsápu og sturtusápu á einungis 99 kr stykkið, en slíkar lágmarksnauðsynjar eru oft óþarflega dýrar. Svo má geta þess að í gærkvöldi var það mér sannkallað gleðiefni að kaupa 1944 til að taka með á kvöldvakt. Það vill nefnilega svo heppilega til að uppáhaldsrétturinn minn, kjötbollur í brúnni sósu með kartöflumús, er talsvert stærri en aðrir réttir frá 1944, en jafnframt sá ódýrasti. Ég veit þetta hljómar eins og hin ótrúlegasta lygasaga en nei, kæru lesendur, svona getur auðnuhjólið snúist manni í vil.

Með hlýrri kveðju úr neytendahorni Unu.

Engin ummæli: