Þetta er svona fullorðins
Sumir dagar eru bara leiðinlegri en aðrir. Og um fáa daga hef ég meiri þörf fyrir að blogga en einmitt þá. Ég byrjaði daginn snemma á því að fara í klippingu upp í Mosó, á stofuna Pílus þar sem hárgreiðslukonurnar virðast skilja betur hvað ég vil heldur en á svona “ó-mæ-gad við erum svo kúl” stöðum eins og Tony&Guy og Rauðhettu & úlfinum. Alla jafna fer ég í klippingu tvisvar á ári, þ.e.a.s. um það leyti sem nógu langt er liðið frá því síðast til að ég sé búin að gleyma því að það er yfirleitt svo dýrt að mér verður flökurt. Í þetta skiptið ákvað ég að gera mjög lítið við mig til að losna við blæðandi útgjöld. Ég var komin með nokkurra sentímetra rót og bað því um að það yrði settur smá litur yst í hárið, til að hylja rótina og svona, en ekki allsherjar litun þó. Lét svo særa það og snyrta toppinn. Þannig bjóst ég við að lágmarka kostnaðinn, en neinei, 14 þúsund krónur þakka þér kærlega fyrir. Get ég hvergi farið til að halda hárinu mínu sæmilega snyrtilegu án þess að greiða á annan tug þúsunda fyrir það? Hvaða rugl er þetta?
Djöfull er stundum glatað að lifa í heimi hinna fullorðnu. Ef það er eitthvað sem fer illa með mig er það að fá svona óvænt útgjöld sem ég gerði ekki ráð fyrir. Ég geri yfirleitt fjárhagsáætlanir í byrjun hvers sumars og vetrar og það fer massíft í taugarnar á mér þegar svona lagað, ásamt svínslegu okri á klippistofum, kemur aftan að mér. Hvað þá ef það er allt sama daginn. Ég ákvað samt að drífa mig þá heim og ganga frá þessari skuld, nema hvað þegar ég klæddi mig í jakkann minn datt af síðasta talan sem eftir var á honum. Þennan jakka keypti ég á 12.þús kr. í Debenhams fyrir innan við mánuði síðan, og á þessum tíma hafa allar tölurnar dottið af tvisvar (ég fór með hann til baka í búðina í viðgerð í millitíðinni.) Hvers á maður að gjalda sem neytandi á Íslandi? Þegar ég var svo búin að keyra langleiðina heim fattaði ég að ég hafði gleymt bréfunum upp í Mosfellsbæ.
Djöfull getur allt verið pirrandi stundum.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli