sunnudagur, desember 02, 2007

Gamla, meyra

Líklega er ég aldrei nær mörkum þess að verða næstum því trúuð en þegar ég sit við kertaljósið í Hallgrímskirkju og hlusta á Mótettukórinn syngja jólasálma. Held þetta sé fjórða árið sem ég fer á aðventutónleika kórsins og finnst alltaf jafn notalegt. Aðventan er algjörlega minn tími, enda hátíð fyrir hrifnæma. Ég gleymi mér svo í heilagleikanum að ég læt næstum glepjast þegar kórinn syngur úr Betlehemsstjörnunni:

Vertu sem barnið, bara fylgdu honum
byrðum hann léttir af öllum sem þjást.
Veitir þér huggun, hjartað fyllir vonum.
Himinsins stjörnur í augunum sjást.
Ástúðin er hann, inn í hjörtun fer hann
umhyggju ber hann í eilífri ást.

Ágætis mótvægi kannski við guðleysið sem ég velti mér upp úr í ritgerðarskrifunum þessa dagana, en vinnuheiti ritgerðarinnar er einmitt "Killing God". Betlehemsstjarnan er líka á meðal fegurstu íslensku sálmanna; texti eftir Úlf Ragnarsson við lag Áskells Jónssonar. Gleðilega aðventu.

Engin ummæli: