þriðjudagur, janúar 22, 2008

Heath Ledger

Stundum kippir maður sér lítið upp við fráfall frægs fólks og annarra ókunnugra. Stundum hefur það furðulega mikil áhrif á mann. Ég varð mjög döpur við að heyra af dauða Heath Ledger. Kannski vegna þess að þetta kom á óvart, hann hélt sig frá sviðsljósinu og maður vissi ekki til þess að hann ætti við vandamál að stríða. Kannski vegna þess að hann var mjög hæfileikaríkur og vandaður leikari sem átti framtíðina fyrir sér. Kannski vegna þess að hann var sjarmerandi og bauð af sér góðan þokka. Kannski vegna þess að hann hafði lengi verið í uppáhaldi hjá mér.


Þegar ég var á fermingaraldri voru þættirnir Roar sýndir á Rúv og þar sá ég Heath Ledger fyrst. Ég varð ekkert lítið skotin í honum þá. Þetta voru svona fornaldar fantasíuþættir, og mjög skemmtilegir. Hann var þá ekki nema rétt innan við tvítugt, ótrúlega sætur og talaði með írsk/áströlskum hreim sem manni fannst frekar töff. Svo fikraði hann sig smám saman áfram og var farinn að stimpla sig rækilega inn sem gæðaleikari, en manni finnst hann nú varla vera nema nýbyrjaður, nýorðin stjarna. Brokeback Mountain verður sjálfsagt myndin sem hans verður minnst fyrir, enda frábær og endurvakti aðdáun mína á honum. Svo verður spennandi að sjá nýju Batman myndina The Dark Knight, þar sem honum tekst að vera jafnvel betri Joker en Jack Nicholson.

Allavega. Það er svolítið skrýtið þegar maður stendur sig að því að syrgja einhvern sem tengist manni ekki neitt, en ég geri það samt eiginlega með Heath Ledger. Mér finnst mikil eftirsjá að honum.

Svo deildum við líka afmælisdegi, við Heath. 4.apríl.

Engin ummæli: