miðvikudagur, janúar 16, 2008

Holtselshnoss

Uppgötvun síðustu helgar var tvímælalaust Holtselshnoss rjómaísinn, sem er fjölskylduframleiðsla frá bænum Holtseli í Eyjafjarðarsveit. Ekki einasta er Holtselshnossið sannkallað hnossgæti, heldur fer nafnið sérlega vel í munni líka og ber vitni um margbreytileika íslenskrar tungu, enda vakti hljómur þess hjartanlegan hlátur á rauðvínsbláum vörum í Hvammi þessa helgina. Ég get einlæglega mælt með því að íslenskir neytendur næli sér í dollu af Holtsnesshnossi og eins væri tilvalið að gera sér ferð í Eyjaförðinn næsta sumar, berja augum norðlenska fegurð og hvíla loks beinin að Holtseli því þar hafa bændur komið upp kaffihúsi á efri hæð fjóssins þar sem hnossið er að sjálfsögðu á matseðlinum. Styðjum einstaklingsframtakið! Kaupum Holtselshnoss!

Guðmundur Jón Guðmundsson ísgerðarmeistari er stoltur af Holtselshnossinu

Engin ummæli: