þriðjudagur, janúar 08, 2008

Una hjarta Excedrin

Það er alveg magnað að upplifa það í fyrsta skipti eiginlega á ævinni að taka verkjatöflur sem raunverulega virka. Ég vaknaði í morgun með þennan týpíska mígreniverk; dúndrandi hausverk í kringum augað sem magnaðist við hverja hreyfingu og meðfylgjandi flökurleika sem gerði það að verkum að ég gat ekki borðað nema 2 skeiðar af hafragrautnum sem Önni var svo vænn að elda fyrir mig áður en ég þurfti að kasta upp. Ákvað að tilkynna mig veika í vinnuna þar sem ég var ekki upp á mitt besta og langaði helst að liggja bara fyrir í myrkrinu.
Sem betur fer virðist í mínu tilfelli sem sífellt lengra líði á milli mígrenikasta með aldrinum og því hefur ekki oft reynt á verkjatöflurnar sem ég fékk Pablo til að kaupa fyrir mig í Bandaríkjunum í fyrra, en þær heita Excedrin Migraine og fást ekki á Íslandi. Í gegnum tíðina hef ég prófað að taka öll þessi almennu lyf við hausverknum; panódíl, magnýl, koffasón, voltaren, treo osfrv, þrátt fyrir að hafa nánast aldrei fundið fyrir neinum áhrifum af þeim. Þau einfaldlega virka ekki gegn mígreni.
Með Excedríninu upplifi ég hinsvegar mikla töfra, því ég finn greinilega hvernig það slær á verkinn, sem er alveg merkileg tilfinning. Til þess að ná fram sem bestri virkni er samt eiginlega nauðsynlegt að leggjast fyrir og helst með kaldan bakstur. Það gerði ég áðan, skellti í mig tveimur töflum, lagði mig í klukkutíma og vaknaði heil heilsu. Örlítið dofin að vísu, en allavega verkjalaus. Þvílíkur munur. Ég hafði eiginlega bara ekki áttað mig á því að lyf gætu haft svona góða virkni. Áfram lyfjaneysla!

Engin ummæli: