laugardagur, febrúar 02, 2008

Heimurinn er skemmtilegur staður

Japanir hafa það orð á sér að vera tæknileg og nýjungagjörn þjóð. Þegar kemur að fjármálum virðast þeir hinsvegar vera ansi íhaldssamir. Kreditkort eru óvíða notuð í Japan og að sama skapi eru þeir gamaldags í internetbókunum. Þannig gat ég ekki bókað hostel í gegnum staðlað form á heimasíðu heldur þurfti ég að senda fyrirspurn á ímeili og faxa síðan kreditkortanúmerið mitt til þeirra. Lágfargjalda-ferðaskrifstofan No.1-travel tekur svo aðeins við greiðslum með reiðufé á staðnum eða millifærslu úr banka.

Þennan fornaldarhátt bæta Japanir þó upp með einstakri þjónustulund og góðu viðmóti. Um klukkan 1 í gærkvöldi, þegar klukkan er tæplega 9 að morgni í Japan, var gerð tilraun á heimili mínu til að bóka flug frá Japan til Kína. Aðeins 6 mínútum eftir að ég ýtti á send var komið afar vinalegt svar með mörgum upphrópunarmerkjum frá starfsmanni ferðaskrifstofunnar (if you need more information, please ask for SHOGO!!). Áður en ég hélt lengra ákvað ég að googla þennan ágæta mann, eins og ég geri með flesta. Kom þá upp spjallþráður þar sem nýsjálenskur strákur óskaði eftir ráðleggingum um flug í Japan og fékk þau svör frá suður-afrískum strák að No.1-travel væri frábær ferðaskrifstofa og hann gæti sérstaklega mælt með honum Shogo því sá hefði veitt frábæra þjónustu.

Svipað var uppi á teningnum um daginn þegar ég átti samskipti við hana Chicu hjá K's House hostelinu í Tokyo. Ég googlaði hana og fékk þá þær upplýsingar á vefsíðu norsks pars að stemningin á K's House væri eins og á Staupasteini, þar sem allir þekktu nafnið þitt, og umrædd Chica væri sérstaklega hjálpsöm. Með fylgdi mynd af Chicu veifandi í móttöku hostelsins. Þar með var ég komin með andlit á japanskan viðmælanda minn og veit nú hvað bíður okkar við lendingu í Tokyo.

Þótt það sé talsverð vinna er skemmtilegt að skipuleggja svona ferð með hjálp ferðalanga frá öllum heimshornum sem deila reynslu sinni og ábendingum á ýmsum vefsíðum. Ekki síður skemmtilegt verður að hitta alla heimsins ferðalanga á staðnum og deila reynslusögum yfir tebolla. Ég mæli sem sagt með heiminum krakkar. Og internetinu.

Beygingarmyndir dagsins: norsks pars

Engin ummæli: