laugardagur, febrúar 09, 2008

Undirbúningur

Þessi ferð okkar sem brestur á innan skamms hefur verið lauslega í undirbúningi síðan um páskana í fyrra. Hugmyndina má rekja til Önnu og Ásdísar sem ætluðu að ferðast saman um Ástralíu og Nýja-Sjáland. Einu sinni sem oftar þegar ferðin þeirra kom til tals reyndu þær að freista mín að fara með líka og jú það var freistandi en mér fannst tímasetningin ómöguleg fyrir mig persónulega. Einhvern veginn endaði það samt þannig einn apríldag þar sem við sátum úti í garði á Hagamel með ís og lopavettlinga (reyndum að telja okkur trú um að sumarið væri komið) að tekist var í hendur upp á að við Hanna myndum slást í hópinn. Í skipulagsferlinu sem þá tók við bættist síðan Japan inn, svo duttu Ástralía og Nýja-Sjáland út, og skyndilega var þetta orðið að Asíuferð. Eyjaálfan verður að bíða betri tíma.

Undirbúningur svona ferðar felst helst í eftirfarandi: Skoða landakortið reglulega og reyna átta sig á því hvernig er best að tækla leiðina, gera fjárhagsáætlun og spara, kaupa flug, fara í bólusetningar, grafa upp bakpokann og fleiri ferðaútbúnað, fá vegabréfsáritanir, og svo bara telja í sig kjark til að leggja í hann.

Síðurnar hér til hliðar hafa komið okkur að góðu gagni svo óhætt er að mæla með þeim öllum fyrir aðra ferðalanga. Þær bólusetningar sem við ákváðum að taka eru:

  1. Lifrarbólga A og B
  2. Barnaveiki
  3. Mænusótt
  4. Taugaveiki
  5. Hundaæði
  6. Japönsk heilabólga
og hefur japanska heilabólgann vinninginn sem sá sjúkdómur sem ber óhuggulegasta titilinn. Svo keyptum við líka malaríulyf og sýklalyf og þá verðum við vonandi góðar á því.
Eina vegabréfsáritunin sem við þurfum fyrir fram er inn í Kína, í hinum löndunum fær maður áritun við landamærin.
Þar sem aleiga okkar mun þurfa að rúmast innan eins 60 l bakpoka næstu 3 mánuðina pöntuðum við okkur svokallaða "pack-it cubes" frá EagleCreek, sjá síðuna hér til hliðar. Þeir auðvelda manni að einfalda kerfið á pokanum svo maður þurfi ekki að róta í öllu.

Allavega, nóg í bili, mig langaði bara að hafa smá "inngangsfærslu" áður en við leggjum í hann, en eftir það ættum við vonandi að hafa frá einhverju meira djúsí að segja.

Una Sighvatsdóttir

Færslan birtist fyrst á www.asiuflakk.blogspot.com

Engin ummæli: