mánudagur, september 01, 2008

Mánudagskvöld

Við Önni vorum búin í vinnunni klukkan að ganga sjö svo við rétt náðum í versta staðinn sem hægt er að vera á þessum tíma, Krónuna. Svöng, þreytt og hugmyndasnauð. Önni stakk upp á medister-pylsu sem ég skaut strax í kaf enda vil ég líta svo á að medister-tímabilinu sé lokið í lífi mínu. Í bili. Ég kom svosem ekki með betri tillögu; hamborgarar. Fékk dræmar undirtektir. Pirringur jókst.
Hjá kæliborðinu mundi ég allt í einu að við áttum risarækjur í frystinum heima síðan einhvern tíma þegar grillæðið stóð hvað hæst í sumar. Þá fór búltinn að rúlla maður. Haaa. Við fórum að muna eftir ýmsu öðru sem leyndist í frystinum og ísskápnum heima. Úr var þessi líka ljúffenga veisla:

Forréttur
Volgt hvítlauksbrauð

Aðalréttur
Grillaðar risarækjur sem hvítlauk og steinselju
Grillaðir maískönglar með smjöri
Klettasalat með vínberjum og ferskjum

Eftirréttur
Aðalbláber af ömmuslóðum að vestan, með rjóma


Pirringur breyttist í vellíðan. Það er enginn mánudagur í mönnum á Freyjugötu. Svo ég ákvað náttúrulega að blogga um það, enda ekki nema 19 af 614 færslum á þessari síðu undir flokknum matur.

Engin ummæli: