ÞEGAR ég lít til baka yfir stutta ævi sé ég að sjónvarpsgláp var megineinkenni einnar verstu lægðar í lífi mínu hingað til. Ég var 15 ára gömul og nýbyrjuð í menntaskóla þegar ógæfan skall á: kennaraverkfall. Sumir menntaskólanemar tóku fríinu fagnandi en fyrir mér boðaði verkfallið tveggja mánaða félagslega einangrun, bílprófslausa í Mosfellsbæ og órafjarri draumalandinu MR þar sem undur félagslífsins voru nýbyrjuð að opnast fyrir mér.
Ég minnist þess að hafa vaknað á morgnana í allsherjar eirðarleysi. Ekkert bjórkvöld framundan, engin ræðukeppni eða daður í frímínútum. Foreldrar mínir voru erlendis, svo ég hafði ekkert að halla mér að annað en sjónvarpið. Brátt fór ég að skipuleggja máltíðir dagsins eftir sjónvarpsdagskránni. Ég hafði aldrei áður horft á sápuóperur, en í þessu átta vikna tilgangsleysi varð ég skyndilega háð þeim öllum. Morgunstund yfir Glæstum vonum, hádegismatur með Grönnum og kaffibolli yfir Leiðarljósi.
Þegar kennarar sömdu loks fannst mér ég frelsast úr heljargreipum sjónvarpsins. Þetta var árið 2000 en ég hef alla tíð síðan forðast það með hrolli að gera sjónvarpið ráðandi í lífi mínu.
Birtist fyrst sem Ljósvaki í Morgunblaðinu þriðjudaginn 26. ágúst 2008
(svona mjaka ég mér af stað)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli