fimmtudagur, nóvember 20, 2008

Meira af gömlum tímum

Gamalt fólk er uppáhalds viðmælendurnir mínir í vinnunni. Eitt skemmtilegasta viðtal sem ég hef tekið var t.d. í sumar, þegar ég fór á Hrafnistu og spjallaði við hana Siggu Friðriks úr Eyjum sem átti 100 ára afmæli. Sú var sko ekki dauð úr öllum æðum. Sjá brot úr viðtalinu:
-----
Það fer þó ekki á milli mála að Sigríður hefur verið vel metinn starfskraftur hjá Ísfélagi Vestmannaeyja, þar sem hún starfaði lengst af, því þar gegndi hún lengi starfi verkstjóra sem var fátítt meðal kvenna á þeim tíma. Sigríður segist líklega hafa verið beðin um það þar sem hún var dugleg og gat slegið frá sér, en segir jafnframt að hún hafi oft fundið fyrir því að kvenfólk nyti ekki sannmælis því fæstir hafi talið þær eiga nokkuð erindi í ábyrgðarstörf. Það hafi þó sem betur fer breyst síðan þá. Hún nefnir sem dæmi þegar eftirlitsmenn hafi komið frá Fiskimannanefnd til að líta eftir fiskverkuninni í Vestmannaeyjum.
„Þeir komu þrír sjeffar úr bænum, og þá er maður af Akureyri, Bassi nefndur, fyrir utan og þeir spyrja með miklu veldi hver hafi eiginlega umsjá með síldinni hér. „Hún Sigga Friðriks sér um það,“ svaraði Bassi.“ Segir Sigríður að þá hafi eftirlitsmönnunum orðið bilt við og hváð: „Og trúið þið henni fyrir því?“ Þeir hafi þá ekki séð ástæðu til að koma inn og ræða við hana um verkstjórnina. „Manni leið bara eins og glæpakvendi, en svona voru karlarnir í þá tíð. En þær eru nú frekar farnar að mala þá undir sig núna, konurnar, ég held það nú.“
-----
Fyrir nokkrum vikum var svo meiningin að eiga stutt spjall við Jón Hjörleif Jónsson, áttræðan söngfugl og fyrrverandi skólastjóra. Ég endaði hinsvegar á því að kjafta við hann í hátt í 40 mínútur enda reyndist hann stórskemmtilegur karl. Það sem gamlir skemmtilegir karlar hafa umfram unga skemmtilega karla er að þeir slíta yfirleitt ekki samtali án þess að vippa út að minnsta kosti einu vísukorni eða svo og þetta fékk ég að heyra frá honum Jóni:

Það var ég hafði hár og skegg
um höfuð loðið,
en nú er hausinn eins og egg,
illa soðið.

Og klykkti hann svo út með því að það væri líka ekkert nema grautur í höfðinu á honum. Í dag ræddi ég svo við formann félags eldri borgara á Selfossi, Hjört Þórarinsson, sem skreytti samtalið með ekki einni heldur tveimur vísum:

Þótt liggi fyrir launabætur
er lífsviðhorf sem mestu ræður
því sá á nóg sem nægja lætur
við notalegar kringumstæður

frá eigin brjósti um kreppuna og svo bætti hann við þessari frá sjöunda áratugnum sem hann mundi ekki hver orti:

Situr einn með sorgmætt fés
Seðlabanka-Jóhannes
fellir gengi fyrsta des
og fer svo allt til helvítes

Eftir að hafa skeggrætt við svona snillinga er ekki annað hægt en að ljúka dagsverkinu með brosi á vör. Ég er hinsvegar hrædd um að þessi siður að kasta fram vísum í tíma og ótíma sé óðum að lognast út af með deyjandi kynslóð. Ég ætla að leggja mig fram um að læra ógrynni af tækifærisvísum til að bæta úr því.

Engin ummæli: