sunnudagur, nóvember 16, 2008

70 ár aftur í tímann

Í elsta húsi höfuðborgarinnar í Aðlstræti 10 stendur nú yfir stórsniðug sýning sem kallast Reykvíska eldhúsið - matur og mannlíf í hundað ár, þar sem tekið er saman yfirlit um mat og matarmenningu Reykvíkinga á 20. öld.

Það er hollt að setja lífið í sögulegt samhengi við það sem á undan hefur farið og í þessu tilfelli fannst mér það skemmtileg tilbreyting að skoða söguna frá sjónarhorni matarmenningar í stað stjórnmálanna, eins og oftast var gert í sögutímum. Reyndar er það augljóst af sýningunni að ekki er hægt að skilja matarmenninguna alfarið frá pólitíkinni. Mér fannst t.d. fróðlegt að lesa um matarskort og innflutningshöftin sem komið var á sökumgjaldeyrisskorts í landinu upp úr 1930. Þetta var ekki löngu eftir að Íslandsbanka fyrri var lokað með inngripi, daginn eftir neyðarfund ríkisstjórnarinnar seint á sunnudagskvöldi. Einkennilegt hvað sagan endurtekur sig.

Ekki er síður áhugavert að glugga í gamla Mogga frá þessum tíma. Þann 11. apríl 1931 er t.d. sagt frá umræðum á Alþingi um lokun Íslandsbanka: "Pjetur Magnússon tók næstur til máls. Sagði hann að lokun Íslandsbanka hefði verið svo afleiðingaríkur atburður að ekki mætti teljast óþarft að tildrögin yrðu rannsökuð. [...] Erlend firmu hefðu kippt að sjer hendinni um viðskifti við Ísland. Hefðu menn litið svo á, að aðfarirnar við Íslandsbanka bæru þess vott, að hjer sæti að völdum stjórn með slíkt bolsivíkka stjórnarmið, að hjer væri best sem fæstu að treysta [...] þar sem hún hefði ætlað að losast við erlendar kröfur með því að láta þær falla ófullnægðar. Mönnum hætti til að líta svo á a stjórn eins lands væri spegilmynd af þjóðinni."

Á sýningunni í Aðalstræti er margt annað fróðlegt. Þar má t.d. sjá fyrstu heimildir um pizzugerð hér á landi, en þær eru frá 1958-59 svo pizzan kom fyrr hingað en ég hélt. Þar segir m.a. frá ungu íslensku pari sem dvalið hafði í Róm og vildu stofna Pizzeriu í Reykjvík. Þau fengu húsnæði, en draumurinn strandaði á tvennu, í fyrsta lagi var ekki til neitt grænmeti til að notast sem álegg, og í öðru lagi fengu þau ekki skammtaðan þurrger þar sem þau höfðu ekki bakararéttindi. Einnig þótti mér fróðlegt að um aldamótin 1900 mátti fá 25 gerðir af sultu, parmesanost og blóðappelsínur um miðjan vetur í magasínum heldra fólksins í Reykjavík. Á meðan ríkti hinsvegar alvarlegur mjólkurskortur í borginni.

Ég mæli sumsé með sýningunni um Reykvíska eldhúsið. Á fimmtudagskvöldum er Sólveg Ólafsdóttir sagnfræðingur, sem tók sýninguna saman, með leiðsögn um hana. Þess fyrir utan er hún opin til að skoða sjálfur, og stendur til 23. nóvember.

Engin ummæli: