Við áramót - annáll 2008
2008 var með eindæmum viðburðaríkt og stórt ár, bæði í mínu persónulega lífi og samfélaginu öllu. Sennilega hef ég sjaldan gengið í gegnum álíka tilfinningarússíbana á einu ári síðan einhvern tíma á gelgjunni. Eins og ég hef stundum áður gert hyggst ég því taka saman stuttan annál til að halda þessu til haga.
Fyrsti árfjórðungur
Fyrstu mánuðir ársins 2008 eru í hálfgerðri móður hjá mér, hugsanlega vegna þess að hve mikið var að gera. Ég hafði ætlað að ljúka BA ritgerðinni fyrir jólin 2007 svo ég gæti einbeitt mér alfarið að því að vinna og safna pening í janúar og febrúar fyrir væntanlega Asíuferð. Það teygðist hinsvegar úr því eins og gengur svo afleiðingin var sú að þessa tvo mánuði vann ég 150% vinnu hjá Borgun/Mastercard, samhliða því að leggja lokahönd á BA ritgerðina. Dauðar stundir nýtti ég í bólusetningar og fleira fyrir ferðina. Ég minnist þess að hafa borðað mikið af 1944 réttum á kvöldin þessar fyrstu vikur ársins.
Í febrúarlok útskrifaðist ég svo úr HÍ. Fyrirfram ætlaði ég mér ekki að gera neitt úr þessu enda fannst mér þetta hálfómerkilegt allt saman. Þegar nær dró fór ég hinsvegar að verða æ ánægðari með áfangann og með stuttum fyrirvara ákvað ég því að blása til smá veislu fyrir vinina, sem varð um leið kveðjupartý okkar Asíustelpnanna. Viku síðar lögðum við af stað til Japan.
Það var ferðin stóra, góða sem hefur ekki gert neitt annað en að stækka og verða enn betri í minningunni. Þrír mánuðir, sex Asíulönd og ógleymanleg lífsreynsla lágu að baki þegar ég sneri aftur heim. Ég hugsa ennþá um þessa ferð á hverjum einasta degi og fyrstu vikurnar eftir heimkomuna var ég alltaf með hálfan hug í Asíu og átti erfitt með að hugsa um neitt annað. Ég bjóst ekki við því fyrirfram að eiga svona erfitt með að jafna mig eftir þessa ferð, en það var mikill órói í mér fyrst í stað. Á endanum breytti ferðin mér meira en ég sá fyrir.
Annar ársfjórðungur
Sennilega stafaði það að einhverju leyti af því hvað lífið var í lausu lofti. Ég byrjaði strax aftur í sumarvinnunni á Mogganum, en haustið var algjörlega óræð breyta. Ég sóttist eftir fastráðningu án þess að vera viss um að ég raunverulega vildi það og fékk ekki svar fyrr en seint í ágúst. Fram að því var umræðan öll á þá leið að fyrirtæki væru flest að segja upp frekar en að ráða og andrúmsloftið var þegar orðið mjög neikvætt út af kreppunni, allt öðru vísi en þegar við fórum af landinu og góðærisbjartsýnin var enn ríkjandi. Á meðan ég var úti fluttu svo mamma og pabbi burt af æskuheimili mínu í Mosfellsbæ og austur fyrir fjall. Í ofanálag átti ég erfitt með að venjast tilhugsuninni um að afi hefði dáið á meðan ég var úti og ég misst af jarðarförinni. Mér leið eiginlega eins og það hefði aldrei gerst og hann væri enn til staðar. Allt þetta átti sinn þátt í því að mér leið mjög skringilega í sumar og varð ýmist mjög döpur eða sárreið af minnsta tilefni, sem er ólíkt mér og mínu hefðbundna jafnaðargeði.
Helst af öllu langaði mig bara að fara burt frá þessu öllu og komast aftur í áhyggjuleysið sem fylgdi ferðalaginu. Tilhugsunin um að skrifa undir fastráðningarsamning var hálfkæfandi og stundum fannst mér eins og allir í kringum mig væru gagngert að gera atlögu að mínu persónulega frelsi og reyna að binda mig niður. Sumarið átti þó auðvitað margar bjartar stundir, ekki síst í Hvammi og í veiðiferðum í Borgarfirði auk útilegu okkar Önna í Þórsmörk.
Þriðji ársfjórðungur
Suður-Evrópuferðin í ágúst, þegar ég hitti vinkonur mínar kæru úr skiptináminu í Bandaríkjunum, gaf mér smá andrými og útrás fyrir þessa tilvistarkreppu og mér leið betur þegar ég kom heim. Svo skall kreppan á fyrir alvöru og í raun er fyndið hvernig allt snarsnerist þá við fyrir mér.
Fastráðningin, sem var skjalfest í september, varð allt í einu ekki lengur aðþrengjandi heldur haldreipi. Útþráin breyttist í e-s konar blendna ábyrgðartilfinningu fyrir því að nú yrði maður að leggja sitt að mörkum í uppbyggingunni, þótt stundum hvarfli að manni að best væri bara að leggja á flótta frá þessu öllu. Ég á samt mjög erfitt með að kyngja þessu klúðri.
Ég átti engar eignir, lán né fjárfestingar og varð því ekki fyrir beinum skaða en ég tel að minn óbeini skaði sé umtalsverður eins og allra. Fyrst og fremst finnst mér það sárt tap að finnast möguleikar mínir skertir. Áætlanir um sparnað fyrir framhaldsnám í útlöndum eru í biðstöðu þar til krónumál ofl. skýrist. Sú tilfinning að mér standi allar dyr opnar og ég geti valið úr möguleikum hefur að hluta vikið fyrir hugsuninni "svo lengi sem ég held vinnunni reddast þetta allt".
Fjórði ársfjórðungur
Undir lok ársins var ég búin að ná mér aftur á strik. Óeirðin liðin hjá og ég aftur orðin nokkuð sátt við stöðu mína í tilverunni. Ég hef kunnað vel við að vera vinnandi kona en ekki nemi, enda vinnan skemmtileg og krefjandi. Við Önni nýttum frítíma okkar vel, fórum mikið í Hvamm og sóttum bæði námskeið tengdum okkar áhugamálum. Sennilega frestast áætlanir um framhaldsnám eitthvað en það stóð hvort eð er ekki til að fara alveg strax og ég er alveg sátt við að ná mér í góða vinnureynslu áður. Jólin og áramót hafa verið frábær, í þetta skipti haldin í Hvammi í fyrsta skipti og Önni var hjá okkur.
Víst er að árið 2008 verður eftirminnilegt. Á heildina var þetta frábær tími, fullur af gleði og hamingju, litadýrð og lífsreynslu. Árið 2009 er það fyrsta í nokkur ár þar sem ekkert sérstakt er framundan hjá mér, engar stórar ferðir eða tímamót. Ýmsar áætlanir eru samt á prjónunum um að gera þetta að skemmtilegu ári og ég hef fulla trú á að svo verði. Þetta veltur allt á hugarfarinu. Gleðilegt ár!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli