miðvikudagur, febrúar 16, 2011

Er kveikt á perunni?

Albert Einstein sagði víst að hann fengi allar sínar bestu hugmyndir á meðan hann rakaði sig. Þessu get ég vel trúað því sjálf fæ ég margar góðar hugmyndir í sturtu. Eflaust kannast margir við eitthvað svipað og eru hugmyndaríkastir á göngu, yfir uppvaskinu eða jafnvel á klósettinu. Kannski má svo segja að það sem skilji afreksmanninn frá hinum sé að hann fari út úr sturtunni/standi upp af klósettinu/ leggi frá sér rakhnífinn og komi hugmyndinni í framkvæmd. Samt er þetta ekki alveg svona einfalt. Það geta allir mótað með sér góða hugmynd, en af hverju virðast sumir fá svona miklu fleiri en aðrir? Hvaðan koma hugmyndirnar? Stundum er lítið gert úr því að fólk fái hugmyndir og látið eins og þær verði til úr engu en þeir sem vinna við að setja fram hugmyndir eru eflaust ósammála því. Þótt hugmyndir Alberts Einsteins hafi helst sprottið fram á meðan hann snyrti á sér skeggið er alveg áreiðanlegt að þær leyndust ekki í raksápunni heldur voru fyrir í höfðinu á honum. Hann var búinn að vinna forvinnuna, sá fræjunum í hugann og laða hugmyndirnar fram, eftir það þurfti hann bara að stíga aðeins til hliðar og leyfa þeim að skjóta rótum. Hugmyndir geta verið eins og orð sem stoppar á tungubroddinum en neitar að láta í sér heyra. Maður finnur að þær eru þarna uppi en til þess að gera sér grein fyrir þeim þarf fyrst að beygja þær undir sig, ná tökum á þeim og festa þær áður en þær renna manni úr greipum, en þykjast svo snúa við þeim baki og leyfa þeim að spretta fram fullmótuðum á meðan maður gerir eitthvað annað.

Rithöfundar eru meðal þeirra sem hafa hugmyndir að lifibrauði. Kristín Marja Baldursdóttir lýsti glímunni við hugmyndirnar skemmtilega þegar hún tók til máls í Háskóla Íslands um daginn í fyrirlestraröðinni „Hvernig verður bók til?" Að það gæti tekið langan tíma að eltast við hugmyndir sínar, að lokka þær fram og þær kæmu með kvölum. Þetta hljómaði kunnuglega í mínum eyrum, enda er ég sannfærð um að höfuðið á mér er sneisafullt af frábærum hugmyndum, það gengur bara stundum erfiðlega að kreista þær út. Andri Snær Magnason komst þannig að orði í bókinni Draumalandið að margar bestu hugmyndirnar væru í seilingarfjarlægð, í rauninni það sem margir „eru alveg að fara að hugsa". Um þetta nefndi Andri Snær skemmtilegt dæmi þegar hann benti á að tveimur klukkustundum eftir að Alexander Bell sótti um einkaleyfi á símanum gekk Elisha Gray inn á einkaleyfastofu í NewYork og sótti um einkaleyfi á sömu hugmynd. Hún virðist því hafa legið í loftinu, síminn og aðrar uppfinningar eru afleiðingar þess sem á undan kemur. Eitthvað veldur því samt að sumir hafa gott lag á að negla niður hugmyndir en aðrir ekki, hvort sem þær eru stórar eða smáar. Þar held ég að hugarfarið skipti miklu máli. Ef við viljum fá hugmyndir þurfum við að vera tilbúin að bæði vinna fyrir þeim og hleypa þeim að. una@mbl.is

Birtist sem pistill í Morgunblaðinu miðvikudaginn 16. febrúar 2011.

Engin ummæli: