Föstudagspistill - Antisportistinn
Lengi vel skilgreindi ég mig sem antísportista og leit jafnvel til þessa karaktereinkennis með stolti. Ég minnist leikfimitíma í grunnskóla þar sem spilaður var fótbolti, en við félagi minn og samverkamaður í antísportismanum komum okkur fyrir á auglýsingalímmiða frá Álafossi á gólfinu í íþróttasalnum. Hann stóð á F-inu og ég á S-inu og markmiðið var að víkja ekki af okkar bókstaf fyrr en tíminn var búinn.
Í menntaskóla voru útihlaup umhverfis Tjörnina grófasta aðför að frelsi mínu og því lék ég þann leik gjarnan að hlaupa út úr klefanum en taka svo u-beygju fyrir horn niður í kjallara þar sem aðstaða nemenda var og hlamma mér þar í sófann með kaffibolla í félagsskap skrópagemlinga þar til áætla mætti að hlaupinu væri lokið. Í tilraun til að fullkomna blekkinguna áætlaði ég mér alltaf rúman tíma því ég taldi meira sannfærandi að ég yrði með þeim síðustu að skila mér í hús. Eftir á að hyggja er samt ólíklegt að kennarinn hafi ekki veitt því athygli að það vantaði roðann í kinnarnar. Þetta var samt ákveðið prinsippmál antísportistans, og því hefði ég seint trúað því upp á sjálfa mig þá að eftir nokkur ár myndi ég hlaupa margsinnis í kringum Tjörnina sjálfviljug í frítíma mínum. Eina hreyfingin sem ég stundaði án þess að vera pínd til var fjallganga.
Byltingin hófst svo hægt að ég áttaði mig varla á því fyrr hún var búin. Fyrst var það sundið. Í mörg ár fór ég alltaf beint í heitu pottana og lét mér ekki einu sinni detta það í hug að dýfa litlu tánni ofan í laugina. Að áeggjan kærastans, bara til að sýna að ég væri ekki ósynd, lét ég mig hafa það einn daginn að synda 200 metra eða svo. Næst urðu metrarnir 500 og festu sig í sessi sem formáli pottaslökunar og svo, fyrst ég var byrjuð, gat ég svo sem alveg eins dólað þetta upp í þúsund. Í dag finnst mér varla taka því að fara í sund nema ég klári 1.500 metrana. Kemst þótt hægt fari.
Á svipuðum tíma prófaði ég í fyrsta skipti að lyfta lóðum í háskólaræktinni og komst fljótt að því mér til mikillar undrunar að mér fannst það skemmtilegt. Fyrst vildi ég bara nota létt lóð og helst ekki lausar stangir því ég taldi að það tilheyrði bara vaxtarræktarkarlasporti. Einn daginn þegar röð var í bekkpressutækið gafst ég upp og gerði bekkpressu með lausu stönginni og fann að það var ekkert mál.
Nýlega fór ég svo að mæta í crossfit. Ég dregst yfirleitt hratt aftur úr þeim bestu í tímanum en það skiptir ekki máli, þetta er samt skemmtilegt og um daginn komst að því, enn og aftur mér til undrunar, að ég get alveg tekið 70 kg í hnébeygju. Það kom mér jafnmikið á óvart að ég gæti alveg gengið á Hvannadalshnúk án þess að deyja.
Hlaupin voru eiginlega síðasta vígi antísportismans, en það féll fyrir stuttu. Það byrjaði á því að ég fór að lengja aðeins upphitunarvegalengdirnar á brettinu. Svo eitt sumarkvöld í fyrra prófaði ég að fara út og hlaupa hring í kringum Tjörnina, eiginlega mest upp á húmorinn. En veðrið var svo gott að ég tímdi ekki að fara strax inn, svo ég hljóp annan hring. Þetta er hæg þróun en hlaupahringurinn hefur lengst og nýjasti sigurinn er að geta hlaupið viðstöðulaust síðasta kaflann, upp Þingholtin, án þess að þurfa að hægja á mér og ganga í brattasta kaflanum.
Örlög mín eru ekki þau að verða afreksíþróttamaður, og ég freistast stundum ennþá til þess að taka u-beygjuna upp í sófa, en þessir litlu smásigrar gefa mikla ánægju og vellíðan. Antísportistinn hefur heldur hægt um sig þessi misserin og ég satt að segja sakna hans ekki.
Birtist sem pistill í Daglegu lífi Morgunblaðsins, 27. maí 2011.
Lengi vel skilgreindi ég mig sem antísportista og leit jafnvel til þessa karaktereinkennis með stolti. Ég minnist leikfimitíma í grunnskóla þar sem spilaður var fótbolti, en við félagi minn og samverkamaður í antísportismanum komum okkur fyrir á auglýsingalímmiða frá Álafossi á gólfinu í íþróttasalnum. Hann stóð á F-inu og ég á S-inu og markmiðið var að víkja ekki af okkar bókstaf fyrr en tíminn var búinn.
Í menntaskóla voru útihlaup umhverfis Tjörnina grófasta aðför að frelsi mínu og því lék ég þann leik gjarnan að hlaupa út úr klefanum en taka svo u-beygju fyrir horn niður í kjallara þar sem aðstaða nemenda var og hlamma mér þar í sófann með kaffibolla í félagsskap skrópagemlinga þar til áætla mætti að hlaupinu væri lokið. Í tilraun til að fullkomna blekkinguna áætlaði ég mér alltaf rúman tíma því ég taldi meira sannfærandi að ég yrði með þeim síðustu að skila mér í hús. Eftir á að hyggja er samt ólíklegt að kennarinn hafi ekki veitt því athygli að það vantaði roðann í kinnarnar. Þetta var samt ákveðið prinsippmál antísportistans, og því hefði ég seint trúað því upp á sjálfa mig þá að eftir nokkur ár myndi ég hlaupa margsinnis í kringum Tjörnina sjálfviljug í frítíma mínum. Eina hreyfingin sem ég stundaði án þess að vera pínd til var fjallganga.
Byltingin hófst svo hægt að ég áttaði mig varla á því fyrr hún var búin. Fyrst var það sundið. Í mörg ár fór ég alltaf beint í heitu pottana og lét mér ekki einu sinni detta það í hug að dýfa litlu tánni ofan í laugina. Að áeggjan kærastans, bara til að sýna að ég væri ekki ósynd, lét ég mig hafa það einn daginn að synda 200 metra eða svo. Næst urðu metrarnir 500 og festu sig í sessi sem formáli pottaslökunar og svo, fyrst ég var byrjuð, gat ég svo sem alveg eins dólað þetta upp í þúsund. Í dag finnst mér varla taka því að fara í sund nema ég klári 1.500 metrana. Kemst þótt hægt fari.
Á svipuðum tíma prófaði ég í fyrsta skipti að lyfta lóðum í háskólaræktinni og komst fljótt að því mér til mikillar undrunar að mér fannst það skemmtilegt. Fyrst vildi ég bara nota létt lóð og helst ekki lausar stangir því ég taldi að það tilheyrði bara vaxtarræktarkarlasporti. Einn daginn þegar röð var í bekkpressutækið gafst ég upp og gerði bekkpressu með lausu stönginni og fann að það var ekkert mál.
Nýlega fór ég svo að mæta í crossfit. Ég dregst yfirleitt hratt aftur úr þeim bestu í tímanum en það skiptir ekki máli, þetta er samt skemmtilegt og um daginn komst að því, enn og aftur mér til undrunar, að ég get alveg tekið 70 kg í hnébeygju. Það kom mér jafnmikið á óvart að ég gæti alveg gengið á Hvannadalshnúk án þess að deyja.
Hlaupin voru eiginlega síðasta vígi antísportismans, en það féll fyrir stuttu. Það byrjaði á því að ég fór að lengja aðeins upphitunarvegalengdirnar á brettinu. Svo eitt sumarkvöld í fyrra prófaði ég að fara út og hlaupa hring í kringum Tjörnina, eiginlega mest upp á húmorinn. En veðrið var svo gott að ég tímdi ekki að fara strax inn, svo ég hljóp annan hring. Þetta er hæg þróun en hlaupahringurinn hefur lengst og nýjasti sigurinn er að geta hlaupið viðstöðulaust síðasta kaflann, upp Þingholtin, án þess að þurfa að hægja á mér og ganga í brattasta kaflanum.
Örlög mín eru ekki þau að verða afreksíþróttamaður, og ég freistast stundum ennþá til þess að taka u-beygjuna upp í sófa, en þessir litlu smásigrar gefa mikla ánægju og vellíðan. Antísportistinn hefur heldur hægt um sig þessi misserin og ég satt að segja sakna hans ekki.
Birtist sem pistill í Daglegu lífi Morgunblaðsins, 27. maí 2011.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli