Þegar fjallað var um móðuharðindin í samfélagsfræðitímum í barnaskóla verkuðu lýsingarnar á þessum mestu hörmungum sem gengið hafa yfir þjóðina frekar framandi og fjarlægar. Tölur um hve margt fé féll, um hve mörg prósent þjóðinni fækkaði og hversu margar bújarðir fóru undir hraun áttu það til að fara inn um annað eyrað og út um hitt. Storknað og mosavaxið hraun þekkti maður auðvitað vel en tengingin milli hraunsins og þeirra erfiðleika sem geta fylgt því að búa á eldfjallaeyju var frekar veik í huga þess sem ekki hafði reynt það.
Ýmsar skráðar heimildir eru til um þau fjölmörgu eldgos sem orðið hafa á Íslandi á sögulegum tímum, því ítarlegri sem þær eru nær okkur í tíma. Áhugaverðastar eru þær heimildir sem lýsa áhrifum atburðanna á líf þeirra manna og dýra sem upplifðu þá. Jón Steingrímsson lýsti til dæmis með afar myndrænum hætt fyrsta öskufalli Skaftárelda, árið 1783, þannig að morguninn hefði verið svo óvenjufagur „að mönnum finnst helst sem gjörvöll náttúran haldi í sér andanum". En um dagmálabil verða umskipti og jörðin rökkvast. „En nú tekur einnig að rigna yfir þéttum sandi, dökkgráum og bláleitum, svo að sporrækt verður á jörðinni og vart sér handaskil í húsum inni, en þar sem þessi aska fellur í vatn, gerir það svart sem blek. Fénaður hópar sig saman og veit ekki hvaðan á sig stendur veðrið og fuglar fljúga upp með sáru kvaki, áttavilltir og óttaslegnir."
Sambærilegar lýsingar bárust úr í Eyjafjallajökulsgosinu í fyrra og Grímsvatnagosinu nú, af öskufalli svo svörtu að vart sá handa skil eða „niður á tærnar með vasaljósi" eins og bóndi nokkur orðaði það á Mbl.is. Ég hugsaði fyrst með mér að þarna hlyti nú að vera fært aðeins í stílinn, því undir heiðskírum himni í Reykjavík hljómuðu þessar lýsingar álíka fjarlægar og í samfélagsfræðinni í gamla daga. Þegar ég sá myndir í kvöldfréttum frá svæðinu varð mér hinsvegar ljóst að þetta voru engar ýkjur. Við búum á eldfjallaeyju en það eru Eyfellingar, Skaftfellingar og Rangæingar sem þekkja það best hvað í því felst og bera þyngstu byrðarnar. Ástandinu í Kötlugosinu árið 1625 var t.a.m. lýst þannig af klausturhaldara í Þykkvabæ að þar hefði enginn maður átt „nýtan svefn eða rólega stund, hvorki nótt né dag, að ekki væri enn sami kvíði, skelfing og ótti á hverjum manni".
Sagt er frá æðruleysi bænda á hamfarasvæðinu og það er sannarlega aðdáunarvert en engan skyldi heldur undra þótt þeir bogni stöku sinnum og finnist yfirþyrmandi á sálinni að takast á við kolsvartan daginn, líkt og einn þeirra játaði í Morgunblaðinu í gær. Ein sterkasta frásögnin af því gosi sem við upplifum nú var viðtal Rúv við bónda í Landbroti sem barðist fyrir lífi ánna sinna. Allar þessar myndir sem eru teknar og fréttir sem eru fluttar jafnóðum eru ómetanlegar heimildir, bæði fyrir þá sem á eftir okkur koma en líka fyrir okkur sjálf til að skilja betur hvað í því felst að búa á eldfjallaeyju.
Birtist sem pistill í Morgunblaðinu miðvikudaginn 25. maí 2011.
Sagt er frá æðruleysi bænda á hamfarasvæðinu og það er sannarlega aðdáunarvert en engan skyldi heldur undra þótt þeir bogni stöku sinnum og finnist yfirþyrmandi á sálinni að takast á við kolsvartan daginn, líkt og einn þeirra játaði í Morgunblaðinu í gær. Ein sterkasta frásögnin af því gosi sem við upplifum nú var viðtal Rúv við bónda í Landbroti sem barðist fyrir lífi ánna sinna. Allar þessar myndir sem eru teknar og fréttir sem eru fluttar jafnóðum eru ómetanlegar heimildir, bæði fyrir þá sem á eftir okkur koma en líka fyrir okkur sjálf til að skilja betur hvað í því felst að búa á eldfjallaeyju.
Birtist sem pistill í Morgunblaðinu miðvikudaginn 25. maí 2011.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli