miðvikudagur, júní 22, 2011

Þjáning og dauði í sumarfríinu

Við innrás Víetnama í Kambódíu árið 1979 lögðu Rauðu khmerarnir á flótta og skildu eftir sig blóði drifna slóð. Eitt ógeðfelldasta vegsummerkið um harðstjórnina er Tuol Sleng-fangelsið, sem áður var gagnfræðaskóli í Phnom Penh. Víetnamski stríðsfréttaritarinn Hoy Van Tay fylgdi herdeildinni sem uppgötvaði fangelsið (þeir runnu á lyktina af rotnandi líkum) og festi á filmu afskræmda mannslíkama hlekkjaða niður í rúm, blóðslettur upp um alla veggi, þrönga fangaklefa og frumstæð pyntingatæki. Í viðtali í júní 2009 sagði Ho að tilfinningin væri ólýsanleg sem bærðist með honum þegar hann gekk inn í fangelsið og sá með eigin augum hversu hömlulaus grimmdin hafði verið, meiri en hann hefði nokkurn tíma getað ímyndað sér.

Líkin sem skilin voru eftir hafa verið grafin, en að öðru leyti má enn í dag sjá fangelsið nokkurn veginn eins og Ho sá það, en nú í vernduðu umhverfi safns. Blóðsletturnar eru enn á veggjum og gólfum, að vísu orðnar brúnleitar. Járnrúmin, hlekkirnir og pyntingatækin eru þarna enn eins og skilið var við þau. Þarna spranga nú sólbrenndir túristar útmakaðir í moskítófælu um og virða hryllinginn fyrir sér. Það sama má segja um alræmda staði eins og Sachsenhausen-þrælkunarbúðirnar í Þýskalandi og Auschwitz-Birkenau-helfararsafnið í Póllandi, sem mörg hundruð þúsund ferðamenn heimsækja árlega. Staðir sem geyma minningar um dauða og þjáningu eru ekki síður vinsælir meðal ferðamanna en sólarstrandir og hafa sótt á undanfarin ár.

„Myrkvaferðamennska“ var aðeins nýlega skilgreind sem hugtak og henni gróflega skipt í ýmsa flokka; m.a. sorgarferðamennsku, fátæktarferðamennsku og hörmungaferðamennsku, sem segja má að hafi verið ástunduð á Íslandi í tengslum við eldgosin síðustu tvö ár. (Icelandair sendi fréttatilkynningu á erlenda miðla þar sem sagt var frá því að forvitnir gestir flykktust á öskufallssvæðin til að sjá með eigin augum afleiðingar hamfaranna.) Hvatirnar að baki ferðalögum á staði sem geyma heimildir um myrkari hliðar mannkynssögunnar geta verið af ýmsum toga. Slík ferðamennska getur verið fræðandi og fordæmisgefandi, hún getur aukið samkennd og dýpkað skilning ferðalangsins á samfélaginu og mannlegu eðli. En myrkvaferðamennska spilar líka inn á ákveðinn blóðþorsta, sömu hvöt og fær okkur til að sperra eyrun meira en venjulega þegar varað er sérstaklega við myndum í fréttatímanum. Það er hollt að spyrja sig nokkurra siðferðisspurninga áður en aðgangseyrir er greiddur í skoðunarferð um fátækrahverfi eða staði þar sem hamfarir gengu yfir eða fjöldamorð voru framin.

Hvað vonast þú til að fá út úr heimsókninni? Stjórnast hún aðeins af gægjuþörf eða verður þú einhverju bættari? Græðir bara þriðji aðili eða er heimsókn þín til hagsbóta fyrir það samfélag sem þjáðist og þjáist kannski enn vegna atburðanna? Ef rétt er með farið getur myrkvaferðamennska verið ómetanleg reynsla.

Birtist sem pistill í Morgunblaðinu miðvikudaginn 22. júní 2011.

Engin ummæli: