miðvikudagur, ágúst 10, 2011

Taki til sín sem eiga


Allt fyrir ástina.
Eina sem aldrei nóg er af.
Mennirnir elska, fórna, kveljast, þjást og sakna.
Allt fyrir ástina.
Sama hvað lífið gæfi mér,
ég segði út með hatrið, inn með ástina.
Svo segir í texta við lag Páls Óskars Hjálmtýssonar, Allt fyrir ástina. Páll Óskar hefur verið ötull talsmaður ástar og kærleika. Hann syngur um lífið og lofar það líka og hefur komið við hjartað í okkur mörgum með því að koma heiðarlega fram og tjá sig af einlægni. Nú síðast fékk hann þúsundir manna til að rétta allar hendur upp í loft og klappa fyrir ástinni á sólríkum degi í miðborg Reykjavíkur. Skilaboðin voru út með hatrið, út með neikvæðnina, inn með ástina og bjartsýnina. Ekki veitir af, því þótt Gleðigangan á laugardaginn hafi einkennst af gleði og samkennd reynist rætnin því miður sjaldnast langt undan og margir samborgarar okkar fá reglulega að kenna á fyrirlitningu og mismunun.
Hatursorðræðan þrífst ekki síst í skjóli tölvuskjásins og það var gegn þessari ómenningu sem Páll Óskar beindi m.a. spjótum sínum þegar hann sagði að hátíðahöldin næðu ekki bara til mannréttindabaráttu samkynhneigðra. „Þetta er hátíð fyrir alla þá sem eru orðnir leiðir á hatrinu og níðinu – inni á netinu, öllum ógeðslegu kommentunum sem hægt er að segja um alla minnihlutahópa,“ sagði Palli. 
Flestir gátu óhikað tekið undir orð hans, en einhvern veginn tókst samt litlum en háværum minnihlutahóp að verða þessum einfalda sannleik sárreiður og taldi að sér vegið þegar nefnd var til sögunnar ímynd hvíta, ríka, gagnkynhneigða, hægrisinnaða karlmannsins. Þar virðist ákveðin rökvilla vera á ferðinni. Páll Óskar sagði að engu væri líkara en að þessi hópur hvítra karla væri sá eini sem nyti friðhelgi, en alla aðra mætti uppnefna og níðast á og því þyrfti að breyta. Það þýðir ekki að Páll Óskar vilji að hvítir, ríkir, gagnkynhneigðir, hægrisinnaðir karlmenn séu líka uppnefndir og níddir. Reyndar þarf alveg sérstaka þvermóðsku til þess að takast að skilja orð hans á þann veg.
Hvíti karlmaðurinn var nefndur í þessu samhengi vegna þess að í gegnum söguna hefur kerfisbundið verið brotið á réttindum fólks vegna þess eins að það tilheyrir ekki þeim hópi. Sem betur fer er það á undanhaldi, eins og mannfjöldinn í Gleðigöngunni á laugardag sýndi, en það er samt ennþá svo að þeir sem stríða gegn norminu eiga oft erfiðara uppdráttar vegna fordóma. Meira að segja hvíti karlmaðurinn er ekki félagslega öruggari en svo að ef hann er fátækur gefur það höggstað á honum. Ef hann þjáist af geðsjúkdómi gefur það höggstað á honum. Ef hann er feitur gefur það höggstað á honum. Regnbogalitirnir eru einkennislitir Gleðigöngunnar og þeir tákna fjölbreytileika mannlífsins. Við eigum að fagna fjölbreytileikanum, ekki fordæma hann, og fylgja í fótspor Páls Óskars og hleypa ástinni inn.

Birtist sem pistill í Morgunblaðinu miðvikudaginn 10. ágúst 2011.

Engin ummæli: