Sjálfsbjargarviðleitnin
Það var svo rosalegur hrollur í mér um daginn, alveg inn að beini. Ég skildi þetta ekki, fyrr en ég sá mynd á Facebook frá Nasa af Íslandi. (Já, þið lásuð rétt, ég er af þeirri kynslóð að ég átta mig fyrst á því að það sé snjór úti með því að sjá gervihnattamynd af landinu, áður en ég lít út um gluggann.)
Ísland er næstum því eins og skartgripur séð úr geimnum, svona sindrandi silfurhvítt í biksvörtu hafinu og stórskorin standlínan virðist fínlega dregin með oddmjóum penna. Það öfugsnúna var að þegar ég sá þessa mynd þá hlýnaði mér svolítið um hjartarætur, ekki ólíkt því þegar ég sé mynd dagsins af sætum kettlingi á netinu. Það vaknaði nánast hjá mér einhver móðurtilfinning af því að sjá Ísland svona eitt og kalt og yfirgefið úti í hafsauga.
„Æjjj, litli ísmolinn okkar,“ hugsaði ég með mér og fann ekki lengur fyrir kuldanum. Ég geri mér alveg grein fyrir því að ást mín á þessari eyju getur líklega skilgreinst sem afbrigði af Stokkhólms-heilkenninu. Það er, nokkurs konar andlegt sjálfsbjargarviðbragð, líkt og þeir upplifa sem haldið er gíslingu en verða tilfinningalega bundnir kvalara sínum og telja honum allt til tekna. Það sem ég á samt erfiðast með að láta koma heim og saman í þessu öllu saman er þegar hreinræktaða 19. aldar ættjarðarástin svellur fram gagnvart þessum litla ísmola, á sama tíma og ég finn fyrir megnri óbeit á samfélaginu sem hann byggir. Þær koma í bylgjum, ástin og óbeitin og í byrjun desember var það sú síðarnefnda sem skall fyrst á mér. Lindex og neyslubrjálæðið, Grímsstaðir og útlendingahræðslan, trúarbragðadeilurnar og umburðarleysið, kynferðisbrotin og kvenfyrirlitningin, sorablaðamennskan og siðferðisbresturinn, Facebook og múgæsingin.
Þær eru margar og djúpar lægðirnar sem umræðan á Íslandi hefur tekið síðustu ár en þótt ótrúlegt sé var enn hægt að ná nýjum botni. Um nokkurra daga skeið var internetið nánast undirlagt ekta, íslenskri ömurðarorðræðu og helst að finna huggun í athugasemdakerfum á erlendum vefsíðum, til þess eins að fá staðfestingu á að það er þrátt fyrir allt víðar en á Íslandi sem umræðan er á svona lágu plani. Einhvern veginn verða áhrifin samt megnari í fámenninu. Samfélagið verður undirlagt og hvergi skjól að finna fyrir þá sem vilja bara fá að njóta aðventunnar án múgæsingar. Það var ekki einu sinni nóg af vefsíðum með sætum kettlingum á netinu til að dreifa huganum þegar verst lét. Svo sá ég gervihnattamyndina. Litli ísmolinn á enda alheimsins. Það er sorgleg staðreynd að á þessum hvíta klaka, sem geymir 320.000 sálir innlyksa í svörtu hafi, skuli rúmast svona mikil reiði og andstyggð í garð náungans.
Ég ætla ekki að verða til þess að bæta á það. Sjálfsbjargarviðleitni mín byggist nefnilega ekki eingöngu á því að telja gíslingu minni hér allt til tekna, heldur líka samgíslum mínum. Mér þykir nú þrátt fyrir allt voðalega vænt um ykkur öll.
Birtist sem pistill í Morgunblaðinu miðvikudaginn 14. desember.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli