Á þriðjudagskvöldi fyrir skömmu hitti ég góðvini mína, þau Ásdísi Eiri Símonardóttur, sérfræðing í mannauðsstjórnun, og Jón Eðvald Vignisson, frumkvöðul og tæknistjóra (lengri mun atlaga mín að namedroppi aldarinnar ekki verða að sinni), yfir bjórkollu á knæpu við Laugaveg.
Við það tækifæri varð úr að blaðamaður og sérfræðingur tókust í hendur upp á að feta í fótspor frumkvöðulsins með því að endurtaka leikinn á komandi föstudagskvöldi að viðbættum dansi. Við sérfræðingurinn sammæltumst nefnilega um það að ólíkt frumkvöðlinum værum við ekki nógu duglegar lengur að gera það sem á götumáli gæti kallast að dansa af sér rassgatið og það þrátt fyrir að eiga að heita tiltölulega ungar, lausar og liðugar konur búsettar í miðri þeirri borg sem alræmd er fyrir skemmtanalíf sitt. Þótti þetta því afbragðsgóð hugmynd, allt þar til föstudagskvöldið bar að garði.
Eftir strembna vinnuviku fannst mér öllum mínum þörfum um ánægjulegt kvöld fullnægt þar sem ég lá uppi í sófa og horfði á Útsvarið með ostapoppsmylsnu á bringunni. Ég áræddi að senda fyrstu skilaboðin og gefa til kynna, mjög undir rós þó, að dansinn væri kannski ekki beinlínis dunandi í blóðinu að svo komnu máli. Hófust þá nokkuð löng sms-samskipti sem einkenndust af því að hvorug vildi vera fyrri til að játa á sig miðaldra hegðun. Á endanum náðist þó með miklum létti þögult samkomulag beggja um að sófarónni skyldi ekki raskað þetta kvöldið og jafnframt að þessi uppgjöf ungæðisins fyrir þreytunni færi ekki lengra. Enda skal viðurkennast að það er ekki mjög töff. Síðar hefur undirritaðri verið tjáð að það sé ekki heldur töff að sitja heima með sínum ektamanni og skora hvort á annað í landafræðileiki yfir rauðvínssötri.
Frá þessu segi ég nú vegna þess að eftir að hafa skorað þessi tvö hallærisstig í röð sé ég mig knúna til að reyna að endurheimta kúlið og láta þreytuna ekki hafa yfirhöndina þetta föstudagskvöldið, en tel í ljósi reynslunnar að ég þurfi að festa það á prent til að standa við stóru orðin.
Ef ég svara ekki símanum yfir Útsvarinu í kvöld er það vonandi vegna þess að ég er að dansa.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli