miðvikudagur, janúar 11, 2012

Það er hált á svellinu

Öllu virðist nú hægt að snúa upp í pólitískt argaþras. Meira að segja veðrinu. Desember 2011 var sá snjóþyngsti í Reykjavík síðan 1984 og eftir hressilega ofankomu í lok mánaðarins var snjódýptin í höfuðborginni sú mesta síðan mælingar hófust árið 1921. Síðan hefur snjóað og hlánað til skiptis með tilheyrandi hálku. Nú síðast í gær gekk svo á með stormi og hríðarbyl. Sveiflurnar í veðrinu eru sem sagt í öfgafyllri kantinum. Þetta vitið þið reyndar vel sem lesið þessi orð því öll höfum við lent í basli vegna færðarinnar og sum verið svo óheppin að meiðast. Sjálf flaug ég á hausinn þegar ég skaust yfir götuna heima til að sækja mér pizzu. Þakkaði bara fyrir að fallið varð áður en ég fékk pizzuna og gætti þess að stíga varlegar til jarðar á bakaleiðinni.

Því þótt mildir vetur hafi verið reglan fremur en undantekningin í höfuðborginni reynum við flest að taka þessu bara með ró og haga ferðum okkar og hegðun eftir aðstæðum. Við Íslendingar kunnum jú að temja okkur æðruleysi gagnvart náttúruöflunum, ekki satt? Samt finna margir það í sér að nenna að verða ógurlega reiðir út í borgarstjóra fyrir að láta það gerast að það séu hálka og skaflar á götunum. Það er vinsælt sport á Íslandi þessi dægrin að leita að sökudólgum, og helst hengja þá líka, en áður en fólk stekkur upp á nef sér og krefst þess að einhver verði dreginn til ábyrgðar á veðrinu mætti íhuga nokkur atriði.

Fyrst er það auðvitað snjóþunginn, sá mesti frá 1984, sá mesti eins og áður segir. Í því ljósi má skoða þá staðreynd að á síðustu 25 árum hefur bílum fjölgað allverulega á höfuðborgarsvæðinu. Ég sé greinileg merki þess í þeim tveimur götum sem ég þekki best, við æskuheimili mitt og heimili ömmu minnar, því við báðar þessar götur standa að jafnaði um tvöfalt fleiri bílar en gerðu um miðjan 10. áratuginn svo lagt er í botnlöngum og meðfram gangstéttaköntum, þar sem áður var eingöngu lagt á bílastæðum. Þetta gerir það að verkum að það hlýtur að vera erfiðara í dag en fyrir 25 árum að ryðja svo almennilegt sé, ekki síst þegar á okkur fellur mesti snjór í 25 ár.

Borgin virðist alla jafna ágætlega í stakk búin til að hreinsa göturnar þegar snjóar og ég er ekki viss um að það þætti vel farið með peninga að eiga lager af aukasnjómoksturstækjum til taks í þau fáu skipti sem færðin verður óvenjuslæm eins og nú. Og sama í hvaða átt er rutt, þá hverfur snjórinn víst ekki, hann safnast í skafla þar til hann bráðnar. Því náttúrulögmáli verður ekki breytt.

Talsvert hefur verið um hálkuslys síðustu daga en þau verða reyndar á hverju ári. Veturinn 1994-1995 gerði Landlæknisembættið t.d. rannsókn á hálkuslysum. Þá var óvenjumildur vetur en samt urðu 520 slys, að jafnaði fimm á hvern hálkudag. Flest slysin urðu þá við heimahús eða fyrirtæki og á bílastæðum, ekki á umferðargötum. Áhugavert væri að kanna hvar flestir runnu nú um helgina. Kannski þurfum við að líta okkur aðeins nær og fá okkur mannbrodda.

Birtist sem pistill í Morgunblaðinu miðvikudaginn 11. janúar 2012.

Engin ummæli: