Nærveru minnar ekki óskað
Segja má að félagslegt mótlæti hafi mótað líf mitt frá fyrstu tíð, allt frá því ég var á leikskóla og tvær stelpur við vegasaltið vildu ekki leika við mig vegna þess að þeim fannst stuttbuxurnar mínar ljótar. Þetta var í fyrsta skipti sem ég rak mig á það að við mannfólkið erum ekki alltaf góð hvert við annað. En ekki það síðasta. Smám saman lærðist mér að nærveru minnar er ekki alltaf óskað, jafnvel þótt ég hafi ekkert til saka unnið.Ég hef t.d. ekki tölu á því hve oft stóri bróðir minn rak mig út úr herberginu sínu þegar ég vildi bara fá að fikta í tölvunni hans. Tæpum tíu árum eftir atvikið við vegasaltið, nánar tiltekið daginn sem ég lauk samræmdu prófunum, var ég svo rekin út úr strætó vegna meintra óláta. (Ég gerði auðvitað ekki neitt, þessi strætóbílstjóri var bara eitthvað klikkaður.)
Sú staða kom líka óneitanlega upp á mínum námsárum að mér var vísað úr kennslustund. Hvort gild rök voru fyrir því get ég ekki lagt hlutlaust mat á. Frávísunarferli mínum lauk hins vegar ekki við útskrift. Þegar ég ætlaði að fljúga frá Japan til Kína fyrir nokkrum árum var mér til dæmis vísað frá hliðinu vegna þess að ég var ekki velkomin um borð fyrr en ég hefði klárað ísinn sem ég var að borða. Neyddist ég til að borða hann svo hratt að ég fékk tannkul og heilasting. Einu sinni var mér líka vísað af þungbúnum verði burt af skólalóð Sorbonne í París. Hvernig átti ég að vita að aðeins skráðir nemendur væru velkomnir inn fyrir múrana? Síðasta haust var mér og sænskum kollega mínum svo vísað út úr höfuðstöðvum Evrópuþingsins í Brussel, í fylgd tveggja öryggisvarða sem viðhöfðu miklar formælingar, á flæmsku og frönsku. Það hafði víst eitthvað með það að gera að við höfðum vikið frá leiðsögumanninum okkar, en hann hafði satt að segja alls ekki tekið nógu skýrt fram að við mættum ekki gera það.
Því má sjá að ég þekki vel þá tilfinningu að vera ofaukið og mætti ætla að skrápur minn væri með tímanum orðinn þykkur gagnvart þess lags félagslegu mótlæti. En ég er nú einu sinni þannig úr garði gerð að ég á auðvelt með að samsama mig hópi, þótt hópnum finnist hann kannski ekki eiga samleið með mér. Þótt ég væri að stíga þar inn fæti í fyrsta sinn var ég því strax búin að gera mig heimakomna í salarkynnum Samfylkingarinnar í Kópavogi á mánudaginn, þegar skyndilega var borin upp tillaga um að vísa skyldi blaðamanni út af fundinum. Það tók mig smátíma að skilja að átt var við mig. Í ljósi nýliðinna atburða íhugaði ég að leggja fram frávísunartillögu gegn brottvísunartillögunni, og taldi mig satt að segja eiga nokkuð traust bakland í sessunautum mínum, vinalegum mönnum á miðjum aldri, sem höfðu boðið mér súkkulaðirúsínur í upphafi fundar. En atkvæðin féllu mér ekki í vil. Eina huggunin harmi gegn er að í þetta sinn var ég þó á launum við að láta vísa mér á dyr.
Birtist sem pistill í Morgunblaðinu miðvikudaginn 25. janúar 2011
Engin ummæli:
Skrifa ummæli