133.806 manns – bara einn hæfur?
Maður heitir Ólafur Ragnar og er Grímsson. Hefur hann nú setið sem forseti Íslands í 16 ár, en aldrei hefur neinn borið þann titil lengur. Þegar téður Ólafur Ragnar bauð sig fyrst fram var ég í 6. bekk í grunnskóla. Ég á fallega minningu um vorferð á Þingvelli, þar sem við skólabörnin sátum á Lögbergi og diskúteruðum hvern við myndum kjósa hefðum við kosningarétt. Ekki man ég hvern ég taldi álitlegastan, en man að bekkjarbróðir minn sagðist vilja kjósa Guðrúnu Pétursdóttur vegna þess að hún minnti svo á ömmu hans.
Þetta var árið 1996 og síðan þá hefur Ólafur Ragnar meira og minna átt forsetaembættið. Ef hann situr eitt kjörtímabil enn þýðir það að ég og mínir jafnaldrar verðum komin á fertugsaldur þegar við fáum í fyrsta sinn sem kjósendur raunverulegt val um að kjósa einhvern annan en Ólaf Ragnar Grímsson sem forseta Íslands. Það er ekki eðlilegt.
Útlit er hinsvegar fyrir að sú gæti orðið raunin því ef marka má undirskriftalista á netinu vilja hátt í 30 þúsund manns að Ólafur Ragnar fái að eiga forsetatitilinn áfram. Með því að bregðast ekki við þessari áskorun og segja af eða á um hvað hann ætlar sér heldur Ólafur Ragnar embættinu í gíslingu, því sú slæma hefð hefur myndast í íslenskum stjórnmálum að enginn trúverðugur bjóði sig fram gegn sitjandi forseta. Í ljósi þess hve þaulsætnir íslenskir forsetar eru er þessi hefð afar ólýðræðisleg. Þeir sem fara með völd eru gjarnir á að vilja hanga á þeim og finnast þeir sjálfir vera ómissandi, en það er ekki hollt að sami maðurinn fari einn með eitt af valdamestu embættum þjóðarinnar í 20 ár. Það er ekki hollt fyrir hann og það er ekki hollt fyrir samfélagið.
Forsetaembættið er ungt og ákvæði stjórnarskrár um það óljós, svo þeir sem gegna því hverju sinni hafa getað mótað það talsvert og túlkað. Ólafur Ragnar hefur nú þegar breytt eðli embættisins meira en forverar hans gerðu, hann hefur gert það pólitískara og í tvígang beitt málskotsréttinum sem áður var deilt um hvort væri raunverulega til staðar. Þetta eitt hefur efalaust áhrif á það hverjir bjóða sig fram. Því það er alveg ljóst að næsti forseti fær ekki að vera táknrænn „menningarforseti“ í friði heldur mun hann verða fyrir pólitískum þrýstingi um að beita málskotsréttinum, sem erfiðara verður að hafna en áður í ljósi fordæmisins. Það hvernig næsti forseti fer með embættið mun hafa talsvert um það að segja hvernig áhrif þessa verða til lengri tíma og sama hvort breytingarnar í tíð núverandi forseta njóta almenns stuðnings eða ekki, þá ætti Ólafur Ragnar ekki að hafa einn frjálsar hendur um það að festa þær í sessi.
Málflutningur margra þeirra sem skora á Ólaf Ragnar að sitja í 20 ár er á þá leið að það sé enginn annar. Árið 2011 voru 133.806 Íslendingar á aldrinum 35-70 ára. Ef aðeins einn maður í þessum hópi getur með sóma verið forseti horfir ekki vel fyrir þessari þjóð. Þá liggur ljóst fyrir að Ólafur þarf að sitja til dauðadags.
Birtist sem pistill í Morgunblaðinu miðvikudaginn 9. febrúar 2012.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli