Í morgun fór ég út í búð og keypti hangikjöt. Það kostaði 700 kr.
Áðurnefnd framkvæmdagleði foreldra varð til þess að báðir lamparnir mínir voru fjarlægðir úr herbergi mínu að mér forspurðri. Þeir eru nú í Kára herbergi (sem átti einmitt alltaf að verða mitt en ég svikin um það) til að vekja athygli á fallega nýja skrifborðinu hans. Vegna þessa þarf ég nú aftur að slökkva ljósið hjá hurðinni og stökkva svo undir sæng áður en vondi kallinn undir rúminu grípur í ökklana. Meira vesenið.
E-s staðar var skrifað að stelpur óttist hvað leynist undir rúminu en strákar óttist hvað er utan v.gluggann. Skýringin var sú að kvk.forverar okkar hefðu sofið í trjám og hættan því komið neðan að þeim, en að karlkynið hefði sofið á jörðinni, óvarðir til allra hliða. Voða sæt kenning.
Ég skrifaði "Kára herbergi" hérna f.ofan. Í dag var mér bent á að slíkt væri ensk orðaröðun, áttaði mig ekki á því. Svona læðist enskan aftan að manni. Hinsvegar er til lítils að setja sig upp á móti þessu held ég, löngu orðið rótgróið í ísleskunni. Eða er ég bara setningafræðilegur vanviti?
Talandi um Kára. Í stað hlöðunnar ákvað ég að læra heima í dag þar sem ég þurfti að fara á heilsugæsluna og þegar ég er á annað borð komin upp í Mosfellsbæ nenni ég ekki að vesenast út úr honum aftur. Ég gleymdi hinsvegar að taka m/í reikninginn hinn 15 ára gamla bróður sem var að hefja gítarnám og spilar Metallica ( ath.ekki fallbeygt, of margir hafa tilhneigingu til þess) af mikilli ástríðu í græjunum í stofunni. Eldhúsið er eini staðurinn í húsinu þar sem ég sé mér fært að læra, því mamma er búin að planta óumbeðnum prentara á skrifborðið mitt sem tekur allt pláss.
Ég er f.löngu búin að ákveða hvað hver og einn fjölskyldumeðlimur fær að gjöf frá mér um jólin.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli