föstudagur, nóvember 29, 2002

Heima hjá mér er ekki lengur bakað fyrir jólin. Ástæður eru tímaleysi, ónenna, ólyst og búðarkökur. Mig grunar samt að ég tapi vissri jólastemningu vegna þessa. Í gær fór ég í kaffiboð hjá mági mínum og svilkonu þar sem boðið var upp á einhverjar 8-10 sortir. Eflaust skapast ósköp krúttleg og afslöppuð stemning yfir bakstrinum. Á mínu heimili eru sjaldnast skrifuð mörg jólakort. Ástæður; tímaleysi, ónenna og ólyst. Þrátt fyrir þetta er ég meira jólabarn en flestir.

Jólastemningin vaknar hjá mér við gömlu góðu lögin, gömlu góðu auglýsingarnar, jólagjafalistann, innpökkun, snjóinn, laufabrauðið, aðventuljósin ofl.
Hver er mesta jólastemningin?

Fyrir mitt leyti: Að dansa í kringum jólatréð á Ingólfstorgi á miðnætti Þorláksmessu. Í fyrra byrjuðum við nokkur og svo slógust fleiri og fleiri í hópinn, vinir og ókunnugir, fullorðnir, krakkar og skríkjandi útlendingar. Andrúmsloftið var ótrúlega jólalegt og fallegt. Allir að mæta næst!

Engin ummæli: