þriðjudagur, desember 24, 2002

Aðfangadagur og litla systir hangir yfir barnasjónvarpinu. Þar sem hún er 13 ára gömul og getur bara alls ekki haft sérlega gaman af þessu er mín kenning sú að hún ætli sér einungis að sleppa við að hjálpa okkur hinum. Við hin mundum þá vera ég og mamma....stundum pabbi....bræður mínir finna sér nefnilega afsakanir líka (ef allt annað bregst segjast þeir einfaldlega þurfa að kúka og sitja þar í stikki í 40 mín.) og líta jafnframt blindu auga á það sem þarf að gera. Hvatningarorð mín skila sér þó að einhverju leyti; en ég ítreka við þau að það er ekki mamma sem kemur með jólin í kistu heldur á fjölskyldan að hjálpast að.

Eftir Þorláksmessuöngþveitið safnaðist hópur geðgóðra ungmenna saman og dansaði kringum jólatréð á hallærisplaninu. Rigningin virðist hafa dregið kjarkinn úr sumum því ekki var sama fjölmenni og stundum áður. Við 40 eða svo sem mættum skemmtum okkur þó prýðisvel og eins og alltaf söfnuðust nokkri áhorfendur sem þorðu ekki að slást í hópinn. Það eina sem skyggði á gleðina var ekki rigningin heldur hópur drukkinna unglinga sem voru öskrandi og með læti. Ég veit fátt hallærislegra en að fara á fyllerí á Þorláksmessu. Einn bjór í rólegheitum sleppur,en þeir eiga bágt sem geta ekki skemmt sér öðruvísi en með áfengi og fórna þar með aðfangadag í þynnku. Kannski eru jólin þeirra ekki skemmtilegri en þetta, en jafn umburðalynd og ég þykist vera get ég ekki annað en fundið til fyrirlitningar gagnvart svona hálfvitaskap.

Ekkert spillir samt minni jólagleði. Ég bið ykkur öll vel að lifa og njótið nú jólanna börnin mín, mússímúss.

Engin ummæli: